Nemendur í hársnyrtiiðn í Malaga
Þessa dagana er tíu nemendur á lokaönn hársnyrtibrautar VMA og tveir kennarar þeirra, Hildur Salína Ævarsdóttir og Harpa Birgisdóttir, í námsferð í Malaga á Spáni þar sem skyggnst er inn í eitt og annað sem tengist hársnyrtiiðn. Farið er í heimsóknir og sóttir fyrirlestrar og námskeið o.fl. sem að gagni kemur fyrir nemendur á lokasprettinum í hársnyrtiiðn.
Ferðin er styrkt af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB í mennta-, æskulýðs- og íþróttamálum.
Hópurinn hélt utan um liðna helgi og er í Malaga þessa viku og þá næstu. Þetta er í þriðja skipti sem slík ferð er farin til Malaga með nemendur á lokaönn í hársnyrtiiðn. Fyrsta ferðin var farin um mánaðamótin janúar-febrúar árið 2020, rétt fyrir kóvid-faraldurinn, og síðan var aftur farið fyrir réttu ári. Í fyrra þurfti að gera nokkrar ráðstafanir, enda var mikil kóvidbylgja í gangi í janúar á sl. ári, grímuskylda var í fluginu og allir voru þá þríbólusettir. Þó svo að töluvert hafi verið um kóvidsmit að undanförnu hafa þó engar takmarkanir verið í gangi og því hefur ferðin í ár ekki raskast.
Eins og í fyrri ferðum heimsækir hópurinn m.a Grupo Nebro, sem er einskonar akademía í hársnyrtiiðn. Farið er m.a. í litafræði, greiðslur og ýmislegt annað sem víkkar út sjóndeildarhring nemenda.
Og til viðbótar við ýmislegt er lýtur að faginu og náminu gefur hópurinn sér tíma til að njóta Malaga og þeirrar fjölbreyttu menningar sem hún býður upp á.