Nemendur í matartækni á lokaspretti þriggja anna náms
Núna í desember útskrifast frá VMA öflugur hópur matartækna sem hefur stundað nám sitt í þrjár annir. Námið er skipulagt sem fjarnám með staðnámslotum þriðju hverja helgi og nú um helgina var komið að einum af endapunktum námsins þegar lokaverkefni nemenda voru kynnt og þeir þreyttu fagpróf.
Nemendurnir í matartækni eru að þessu sinni níu og eru af Norður- og Austurlandi og einnig eru tveir nemendur frá Vestmannaeyjum. Þeir komust ekki til Akureyrar til þess að þreyta fagprófið um helgina en gerðu það í sinni heimabyggð í staðinn með aðstoð fjartækninnar.
Matartæknar er víðtækt nám sem er vel rammað inn í lögum og reglugerð – sem m.a. kveður á um menntun, réttindi og skyldur matartækna og skilyrði til að matartæknar geti fengið starfsleyfi, sem Embætti landlæknis gefur út.
Marína Sigurgeirsdóttir, kennari við matvælabraut VMA, segir að matartæknar séu öflugur hópur fagfólks sem starfi m.a. sem yfirmenn í eldhúsum á leik- og grunnskólum og heilbrigðisstofnunum.
„Þessir níu nemendur hafa lagt á sig mikla vinnu og ferðalög,“ segir Marína og nefnir að veðurguðirnir hafi oft sett strik í reikninginn á vorönn 2020, enda rak þá hver óveðurslægðin aðra og síðan hafi Covid-heimsfaraldurinn tekið við. En þrátt fyrir ýmsar hindranir eru nemendur nú óðfluga að nálgast endamarkið. „Ég vil koma á framfæri hamingjuóskum til nemenda og vekja athygli vinnuveitenda þeirra á hve öflugir fagmenn eru hér að ljúka námi,“ segir Marína.