Nemendur í múrsmíði á lokaspretti námsins
Níu nemendur í múrsmíði eru nú á lokasprettinum í námi sínu og munu útskrifast 18. desember nk. Sem fyrr hefur Bjarni Bjarnason, múrarameistari, séð um kennsluna. Þessar myndir voru teknar þegar kíkt var í bóklega kennslustund í VMA.
Í múrsmíði geta nemendur innritast að loknu grunnnámi í byggingadeild VMA. Þeir níu nemendur sem eru að klára múrsmíðina núna fóru í gegnum grunnnámið í VMA og síðan í þriggja anna nám í múrsmíðinni. Námið er bæði bóklegt og verklegt, bóklegi hlutinn er kenndur í VMA en stærsti hluti verklega námsins er út á örkinni, því allir eru þessir níu nemendur í fullri vinnu í faginu og hafa flestir verið lengi. Þeir hafa því safnað mikilli reynslu og kunnáttu í sarpinn.
Þrátt fyrir að ljúka náminu frá VMA núna í desember verður lokapunkturinn ekki settur yfir i-ið fyrr en að loknu sveinsprófi næsta vor.