Nemendur í MYL 113 bjóða til sýningar í Rósenborg
Nemendur í áfanganum MYL 113 – hönnun og hugmyndavinna - bjóða í dag, fimmtudag, kl. 16-18 til opnunar á innsetningum og gjörningum í Rósenborg sem þeir hafa verið að vinna að undanfarinn hálfan mánuð. Óhætt er að segja að það sem nemendurnir, sem eru á myndlistarkjörsviði listnámsbrautar, bjóða upp á er afar fjölbreytt og til marks um mikið hugmyndaflug þeirra.
Nemendum var skipt upp í níu hópa og hver hópur vinnur sitt verk, allt frá hugmyndavinnu til fullunninna verka og gjörninga. Innsetning felur það í sér að listaverkin eru unnin inn í viðkomandi rými. Helga Björg Jónasardóttir kennari segir að þeim hafi boðist að vinna verkin inn í fjölbreytt rými á þriðju og fjórðu hæð Rósenborgar og útkoman sé mjög skemmtileg og fjölbreytt. „Þetta er hluti af þessum áfanga. Við tökum tvær vikur í þetta verkefni og því lýkur síðan með því að afrakstur vinnunnar er sýndur öllum þeim sem vilja sjá. Síðan byrjum við á nýju verkefni í næstu viku,“ segir Helga Björg.