Fara í efni

Nemendur í starfsnámi

VMA-nemarnir Jökull Daði Guðmundsson og Jónas Guðni Jónasson hafa verið í starfsnámi í Krónunni á má…
VMA-nemarnir Jökull Daði Guðmundsson og Jónas Guðni Jónasson hafa verið í starfsnámi í Krónunni á mánudagsmorgnum frá byrjun haustannar, tíu mánudaga, tvo tíma í senn. Með Jökli og Jónasi á myndinni er Stefán Einar Jónsson sem stýrir kjötvinnslu Krónunnar

Á þessari önn eru nokkrir nemendur á starfs- og sérnámsbrautum skólans í starfsnámi út í atvinnulífinu. Starfsnámið er mikilvægur þáttur í náminu á þessum tveimur brautum og eru nemendur þá oftast hluta úr einum degi í viku á vinnustað og vinna hin ýmsu störf samkvæmt óskum stjórnenda fyrirtækjanna.

Námið á sérnámsbraut og starfsbraut er að jafnaði í fjögur ár - átta annir - og er náms- og starfskynning hluti af náminu á síðari stigum námsins. Í mörg undanfarin ár hefur VMA verið í góðu samstarfi við atvinnulífið um starfsnám nemenda og er full ástæða til þess að þakka fyrirtækjum og stofnunum sem hafa veitt nemendum tækifæri til starfsnáms alveg sérstaklega fyrir frábært samstarf.

Þau fyrirtæki sem sautján nemendur af framangreindum tveimur brautum hafa verið í starfsnámi á þessari önn eru Krónan, Hagkaup, Kristjánsbakarí, Toyota verkstæði, Bílaprýði, Sundlaug Akureyrar, Kaffi Ilmur, Ásco, Vélaleiga HB ehf, Slippurinn Akureyri, Amtsbókasafnið, Bókasafn VMA og Valsárskóli á Svalbarðsströnd.