Nemendur listnámsbrautar á A! gjörningahátíð
Mynd: Af fb.síðu Listasafnsins á Akureyri.
Listnámsbraut VMA hefur undanfarin ár lagt sín lóð á vogarskálarnar við undirbúning og framkvæmd hinar alþjóðlegu A! gjörningahátíðar á Akureyri – og svo var einnig þetta árið. Hátíðin var haldin um liðna helgi og var að vanda mikið sjónarspil. Hátíðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, Gilfélagsins, Vídeólistahátíðarinnar Heim, Listnámsbrautar VMA og Myndlistarmiðstöðvar. A!, sem er eina hátíðin á Íslandi sem einbeitir sér eingöngu að gjörningalist, var nú haldin í tíunda skipti. Gjörningarnir voru fjölbreyttir og jafn ólíkir og þeir voru margir.
Mahaut Ingiríður Matharel, nemandi á sinni síðustu önn til stúdentsprófs af listnámsbraut VMA, segir að eins og undanfarin ár hafi nemendur við brautina lagt hönd á plög við ýmislegt varðandi framkvæmd hátíðarinnar. Til viðbótar hafi Arna G. Valsdóttir nefnt þann möguleika að ef áhugi væri fyrir hendi væri nemendum meira en velkomið að skapa og flytja eigin gjörning á hátíðinni. Mahaut segir að fyrirvarinn hafi verið þrír dagar en þrátt fyrir það hafi fjótlega fæðst hugmynd um gjörning sem fólst í því að hún, Aðalheiður Jóna K. Liljudóttir, Emelía Ósk Gunnþórsdóttir, Sigrún Dalrós Eiríksdóttir og Soffía Sunna Engilbertsdóttir myndu flytja hið víðkunna lag Ég er kominn heim – samkvæmt sínu höfði. Og það gerðu þær í Ketilhúsinu sl. föstudag. Gjörningurinn gekk út á að flytja þennan þekkta slagara og hálfgerðan íþróttaþjóðsöng þjóðarinnar átta sinnum - og þær skiptust á hljóðfærum, m.ö.o. spreyttu þær sig allar á mismunandi og ólíkum hljóðfærum. Allar hafa þær eitthvað numið tónlist - þó mest Mahaut (harpa), Aðalheiður (fiðla) og Sigrún (klassískur söngur). Mahaut segir að það verði að viðurkennast að það hafi gengið heldur illa að spila á öll þessi mismunandi hljóðfæri og eftir að hafa horft á myndbandsupptöku af flutningnum hafi hún komist að því að útkoman hafi eiginlega verið hræðileg - svona tónlistarlega séð! En þetta var nú einu sinni gjörningur og þá er að sjálfsögðu allt leyfilegt!
Hér má sjá myndir af þessum tónlistargjörningi og fleiri myndir sem Arna G. Valsdóttir tók á A! gjörningahátíðinni.
Á fb.síðu Listasafnsins á Akureyri má sjá fleiri myndir frá hátíðinni.