Nemendur og kennarar af rafiðnbraut í Evrópuverkefni í Slóveníu
Þessa viku eru tveir kennarar af rafiðnbraut VMA, Guðmundur Geirsson og Ari Baldursson, og fjórir nemendur af rafiðnbraut, Jóhann Tumi Jóhannsson, Kristján Örn Hauksson, Torfi Jóhann Sveinsson og Ævar Ottó Arnarsson, í Erasmus+ verkefninu ElectoTeam í Celje í Slóveníu. Auk VMA og Solski Center skólans í Celje taka þátt í verkefninu skólar frá Hollandi, Kanaríeyjum, Tyrklandi og Ungverjalandi.
Þetta umfangsmikla Evrópuverkefni í rafiðngreinum hófst snemma á síðasta ári. Þá hittust fulltrúar þátttökuskólanna í Tyrklandi, VMA tók á móti fulltrúum hinna skólanna í maí 2022 og síðan hafa skólarnir hist á Kanaríeyjum, í Hollandi og Ungverjalandi og þessa vikuna er punkturinn settur yfir i-ið í gagnkvæmum heimsóknum þátttökuskólanna með vinnustofu í Celje í Slóveníu.
Í ElecoTeam verkefninu glíma nemendur og kennarar við hinar ýmsu úrlausnir í rafiðngreinum og í því sambandi er ekki síst horft til umhverfismála frá ýmsum sjónarhornum. Í Celje er unnið að fjórum slíkum verkefnum.
Í ElecoTeam hefur safnast á einn stað mikil þekking og reynsla og á það bæði við um kennara þátttökuskólanna og nemendur sem hafa fengið tækifæri til þess að taka þátt í verkefnunum. Skapast hafa góð tengsl og ómetanlegt er að fá að kynnast ólíkum skólum og áherslum í kennslu og skólastarfi.