Fara í efni

Nemendur og kennarar frá fimm löndum í heimsókn í VMA

Fjölþjóðlegt samstarf á bókasafni VMA.
Fjölþjóðlegt samstarf á bókasafni VMA.
Í vetur hafa nemendur og kennarar á viðskipta- og hagfræðibraut VMA tekið þátt í norrænu samstarfsverkefni - Nordplus Enterprising Education - með skólum í Finnlandi, Lettlandi, Litháen, Eistlandi og Svíþjóð. Liður í verkefninu, sem m.a. gengur út á vinnu með svokölluð sýndarfyrirtæki, voru námsferðir nemenda í VMA ásamt kennurum til Svíþjóðar, Lettlands, Eistlands og Litháen og nú er smiðshöggið rekið á verkefnið með heimsókn nemenda og kennara frá öllum framangreindum löndum til Akureyrar.

Í vetur hafa nemendur og kennarar á viðskipta- og hagfræðibraut VMA tekið þátt í norrænu samstarfsverkefni - Nordplus Enterprising Education - með skólum í Finnlandi, Lettlandi, Litháen, Eistlandi og Svíþjóð.  Liður í verkefninu, sem m.a. gengur út á vinnu með svokölluð sýndarfyrirtæki,  voru námsferðir nemenda í VMA ásamt kennurum til Svíþjóðar, Lettlands, Eistlands og Litháen og nú er smiðshöggið rekið á verkefnið með heimsókn nemenda og kennara frá öllum framangreindum löndum til Akureyrar.

Fyrsta ferð VMA-nemenda var til Svíþjóðar í september sl., næsta ferð var í nóvember til Lettlands, sú þriðja var í janúar til Palanga í Litháen og síðasta ferðin í mars sl. til Haapsalu í Eistlandi.

Síðastliðinn mánudag komu síðan fimmtán nemendur, þrír frá hverju landi, auk kennara,  til Akureyrar og hittu fyrir nemendur og kennara á viðskipta- og hagfræðibraut VMA. Í gær fóru nemendurnir í heimsókn í ÚA og unnu síðan að þeim verkefnum sem hafa verið í gangi í vetur. Verkefnin fimm, sem út úr þesssari vinnu koma, verða síðan kynnt í dag og mat lagt á þau.

Anita Eglite-Osmane, verkefnisstjóri frá Porvoo International College í Finnlandi, segir að hópurinn dvelji hér á landi í fimm daga – frá mánudegi til föstudags. Hinni formlegu vinnu vetrarins ljúki í dag, en á morgun gefist tækifæri til þess að sjá fallega íslenska náttúru í nágrenni Akureyrar. „Ég hef komið einu sinni áður til Íslands, en ég hygg að flestir aðrir séu að koma hingað í fyrsta skipti,“ segir Anita. Hún segir að í grunninn séu nemendur í þessum sex þátttökulöndum að læra svipaða hluti í viðskiptanámi sínu, enda byggist viðskipti frá einu landi til annars á sömu grunnþáttunum. Gaman sé fyrir nemendur frá ólíkum löndum og með ólíka menningu að bera saman bækur sínar á þessu sviði og ekki síður sé afar lærdómsríkt fyrir kennarana að skiptast á reynslu sinni og þekkingu.

 Hér má sjá nokkrar myndir sem voru teknar á bókasafni VMA í gær þegar nemendur frá löndunum sex voru þar að störfum.

Og Hilmar Friðjónsson, kennari við viðskipta- og hagfræðibraut, tók fleiri myndir sem má sjá hér.

 

 

oskarthor@vma.is