Níu af hverjum tíu nemendum VMA búsettir á Norðurlandi
12.09.2018
Í mörg undanfarin ár hefur Jóhannes Árnason, kennari við VMA, gert athyglisverða tölulega greiningu á dagskólanemendum á haustönn. Þessar upplýsingar eru öllum aðgengilegar á vefsíðu skólans og er þar hægt að gera tölulegan samanburð milli haustanna síðan 2007.
Eins og vera ber er mikill meirihluti nemenda VMA á aldrinum sextán til tuttugu ára eða um 80%. Tæplega 17% nemenda eru á aldrinum 21-30 ára. Þrír nemendur eru á aldrinum 46-50 ára, elstu nemendurnir í dagskóla á haustönn.
Sem fyrr er umtalsverður kynjamunur milli deilda. Þannig eru yfir 90% nemenda karlar í vélstjórn og grunndeildum byggingargreina, rafiðngreina og málmiðngreina en af 48 nemendum á sjúkraliðabraut eru 46 konur eða 96%. Og sem stendur er enginn karl að nema hársnyrtiiðn við skólann. Í matvælanámi er 78% nemenda karlar og á íþrótta- og lýðheilsubraut er einnig meirihluti nemenda karlar eða um 65%. Sömuleiðis eru karlar í miklum meirihluta nemenda í viðskiptanámi og á brautarbrú. Þetta snýst hins vegar við á listnámsbraut, þar er mikill meirihluti nemenda konur. Kynjahlutfallið er nokkuð jafnt á félags- og náttúruvísindabraut.
Eins og vænta má er meirihluti nemenda VMA frá Akureyri eða um 57%, um 33% nemenda búa sunnan Glerár en um 24% nemenda norðan Glerár. Rúmlega 18% nemenda koma úr nágrenni Akureyrar, allt norður til Siglufjarðar. Samtals koma rösklega 14% nemenda úr Þingeyjarsýslum og af Norðurlandi vestra, að Siglufirði undanskildum. Af Norðurlandi eru því rétt um 90% nemenda VMA.
Þegar litið er til talnaupplýsinga undanfarinna ára sést að ekki hafa orðið umtalsverðar breytingar hvað búsetu nemenda varðar. Þó má sjá að frá síðasta skólaári hefur nemendum frá Akureyri hlutfallslega fækkað um sem nemur rösklega einu prósenti og hlutfallslega af heildarfjölda nemenda hafa ekki verið færri nemendur frá Akureyri síðan árin 2007 og 2008. Hins vegar er hlutfallsleg fjölgun nemenda frá öðrum svæðum en Akureyri og úr Eyjafirði sem nemur röskum tveimur prósentustigum samanborið við síðustu tvö skólaár.