Níu tóku sveinspróf í vélvirkjun
Níu þreyttu sveinspróf í vélvirkjun í húsnæði málmiðnbrautar VMA um liðna helgi. Meirihluti próftaka hefur numið vélvirkjun í VMA og voru því á heimavelli, ef svo má segja.
Eins og vera ber var sveinsprófið margþætt og reyndi á þátttakendur. Prófið var frá föstudegi til sunnudags og hófst með skriflegu prófi en seinni tvo dagana var verklegt próf.
Til prófs í skriflega þættinum voru vélar, loft og vökvakerfi, frystikerfi, öryggisfræði, suða og lóðningar, verkáætlanir og almennar spurningar.
Verklegi hlutinn skiptist í smíðaverkefni, þar sem sérstaklega kom til mats frágangur og vinnuhraði, bilanaleit, slitmælingar og suðuverkefni
Smíðaverkefni að þessu sinni var eldsneytisloki og er vægi smíðaeinkunnar 45% af lokaeinkunn verklegs prófs. Frágangur og útlit stykkisins vegur 10% af lokaeinkunn verklegs prófs. Þátttakendur fengu 13 klst. til að klára verkefnið.
Bilanaleit var í díselvél þar sem sett var inn bilun sem próftökum var gert að finna, framkvæma viðgerð á og gera stutta skýrslu um það. Vægi einkunnar fyrir vélaverkefni af lokaeinkunn var 10%. Einnig var þátttakendum gert að slitmæla díselvél og var vægi þessa hluta einnig 10% af heildareinkunn.
Í suðuverkefninu var prófað í flestum algengum suðuaðferðum á járni, kopar, áli, steypujárni og ryðfríu stáli ásamt kveikingu. Einnig var prófað í logskurði. Vægi einkunnar í suðuverkefni var 25% af lokaeinkunn verklegs prófs.