Fara í efni

Níutíu og sex brautskráðust frá VMA

Útskriftarhópurinn í dag. Mynd: Hilmar Friðjónsson
Útskriftarhópurinn í dag. Mynd: Hilmar Friðjónsson

Níutíu og sex nemendur brautskráðust frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í dag við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi. Í það heila tóku þessir 96 nemendur við 108 skírteinum af nítján námsbrautum eða -leiðum. Í maí sl. brautskráði skólinn 153 nemendur og því er heildarfjöldi brautskráðra nemenda skólans á þessu ári 249. Flestir þeir nemendur sem brautskráðust í dag ljúka námi sínu samkvæmt nýrri námsskrá.

Gildi nýrrar námsskrár
Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari ræddi um innleiðingu nýrrar námsskrár í ræðu sinni í dag. „Með nýrri námsskrá er nám nemenda þéttara á hverri önn miðað við eldra kerfi en nokkur umræða hefur verið um mikið álag á framhaldsskólanemendur tengt þessum breytingum á námsskránni. Krafan á tíma nemenda er mikil og tengist ekki einungis námi þeirra heldur einnig vinnu með skóla, tónlistarnámi, íþróttaæfingum eða ýmsum félagsstörfum. Krafan um tíma nemenda er ekki bara frá skólunum en einhvern veginn telja allt of margir að það sé eðlilegt að skólinn dragi úr kröfum sínum svo hægt sé að vinna með námi eða stunda íþróttir. Ég tel að bæði foreldrar og nemendur verði að hugsa vel um í hvað tíminn á að fara og hvenær álag er orðið of mikið. Sé það raunin þarf einhvers staðar að gefa eftir og þess þurfti einnig í eldra kerfi. Við skulum ekki gleyma því að í fjögurra ára námi til stúdentsprófs var meðalnámstíminn rúmlega fimm ár en ekki fjögur. Það sama verður í nýju kerfi, meðalnámstíminn verður meira en þrjú ár. Þar koma áfangaskólar eins og VMA sterkir inn með sveigjanleika í námi þar sem nemendur geta ráðið námshraða sínum sjálfir.

Ég er sannfærð um að breytingarnar með nýrri námsskrá eru til góðs fyrir nemendur og nýjar áherslur í námi efla nemendahópinn okkar með stúdentsprófi sem er góður undirbúningur fyrir frekara nám á háskólastigi. Þessar breytingar hafa ekki farið í gegn án mikillar vinnu innan skólans. Við í VMA getum verið stolt af þeirri námsskrárvinnu sem hefur farið fram bæði í iðnnáminu og á stúdentsprófsbrautum enda horft til okkar vinnu í öðrum skólum. Takmark okkar var alltaf að hafa áhrif í námsskrárvinnunni, ekki bíða bara eftir því hvað hinir gera, heldur vera leiðandi og það hefur okkur tekist. Vil ég nota tækifærið og þakka kennurum og stjórnendum fyrir sitt framlag til að gera nám nemenda enn betra með nýjum áherslum og nálgunum,“ sagði Sigríður Huld.

Fullveldisafmælið – saga þjóðar
Skólameistari fjallaði í ræðu sinni um fullveldisafmælið og sagði að þess hafi verið minnst á ýmsan hátt í VMA. „Við í VMA notuðum þessa önn til að leggja áherslu á fullveldið og daginn fyrir vetarfríið okkar í október héldum við upp á fullveldið með skemmtun í Gryfjunni og hvöttum nemendur og starfsfólk til að mæta í íslenskum búningum eða klædd í samræmi við tíðarandann fyrir 100 árum. Þá fléttuðu kennarar fullveldisumræðu inn í áfanga sína með fjölbreyttum hætti. Nemendur á listnámsbraut unnu mörg skemmtileg verkefni sem má á einn eða annan hátt tengja fullveldi Íslands. Meðal annars beindu þeir sjónum að íslenska þjóðbúningnum og gerðu tillögur um breytingar á honum til að laga hann að nútímanum. Skjaldarmerki Íslands var endurhannað og nemendur komu með  tillögur að nýjum þjóðfána og hönnuðu mynstur með vísan til íslenskrar þjóðarsálar. Í áfanga í stjórnmálafræði var fullveldið skoðað út frá stjórnmálum og stjórnsýslunni en þar veltu nemendur fyrir sér hvað fólst í því að Ísland varð fullvalda, hvað breyttist við fullveldið og hvernig sambandi Íslands og Danmerkur var háttað til 1918. Nemendur skoðuðu hvað fælist í því að verða fullvalda þjóð og hvernig staða Íslands væri í alþjóðasamfélaginu og gagnvart alþjóðlegum samningum og skuldbindingum. Eins veltu nemendur vöngum yfir Íslandi og Evrópusambandinu og stöðu landsins gagnvart fullveldinu ef Ísland gengi í ESB. Og að lokum skoðuðu þeir efnahagshrunið fyrir áratug og leituðust við að svara þeirri spurningu hvort Ísland hafi mögulega glatað fullveldi sínu með aðkomu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins að efnahagslegri endurreisn landsins,“ sagði Sigríður Huld og lagði áherslu á mikilvægi þess að tengja nám í framhaldsskólum við sögu þjóðarinnar og menningu. „Á Íslandi búum við við það að saga okkar sem þjóðar er skráð frá upphafi. Það eru aðeins rúmlega 1100 ár síðan fólk fór að búa á Íslandi og er það stuttur tími borið saman við aðrar þjóðir. Við höfum jafnvel nöfn og lýsingar af því fólki sem fyrst bjó á ákveðnum svæðum. Um allt land má finna nöfn á bæjum eða svæðum sem bera nöfn þeirra einstaklinga sem fyrstir námu land eða bera enn þau nöfn sem svæðunum var gefin af þeim landsnámsmönnum og -konum sem þar numu land. Þórunn hyrna og Helgi magri námu land í Eyjafirði og nefndu þau bæ sinn Kristnes. Dóttir þeirra, Þorbjörg hólmasól, fæddist í Þórunnareyju í Eyjafjarðará. Þorsteinn Svörfuður nam land í Svarfaðardal, Þengill mjögsiglandi nam land við Þengilshöfða við Grenivík og þannig má lengi telja. Eitt af því sem hefur verið mikilvægt í þeim hátíðarhöldum sem hafa verið á þessu ári er að tengja okkur í nútímanum við samfélagið sem var hér fyrir 100 árum þegar við fengum fullveldið. Kuldi og frost, léleg húsakynni, fátækt, eldgos, Spænska veikin -  allt þetta var örugglega að hafa meiri áhrif á daglegt líf Íslendinga fyrir 100 árum en ákvörðun um fullveldið. Það hins vegar hvatti Íslendinga til dáða að verða aftur sjálfstæð þjóð í eigin landi. Hér voru skáld sem sömdu ættjarðarljóð, hvöttu Íslendinga til dáða annað hvort með níð um danskt yfirvald eða með því að upphefja þjóðarsálina í gegnum fornar sögur.

Á þessu ári hef ég oft hugsað til móðurömmu minnar. Hún var fædd 5. desember 1918 hér í Eyjafirði. Hvaða væntingar höfðu foreldrarnir til hennar og hvaða tækifæri biðu hennar? Ein hugsunin hjá þeim var örugglega þessi; mun dóttir okkar lifa af fyrstu dagana, vikurnar? Amma mín flutti síðar með föður sínum og systkinum í Fljótin en þá hafði móðir hennar látist af völdum berkla. Sem betur fer voru aðstæður ömmu þannig að ekki þurfti að skipta upp systkinahópnum eins og oft varð raunin þegar börn misstu foreldra sína á þessum tíma.

En tækifæri þeirra sem fæddust í byrjun síðustu aldar voru svolítið eins og fullveldið sjálft. Tækifæri voru til staðar en það þurfti að halda vel um þau til að missa þau ekki frá sér. Fullveldið Ísland fékk tækifærið árið 1944 þegar Íslendingar stofnuðu lýðveldið - og nokkrum dögum eftir lýðveldisstofnunina fæddi amma mín sitt fyrsta barn sem er móðir mín. Amma mín hafði ekki tækifæri til menntunar fyrir utan þá almennu menntun sem í boði var á þessum tíma en árið 1946 fór amma suður til Reykjavíkur til að læra til ljósmóður. Það vantaði ljósmóður í hreppinn og amma var í raun send í námið af hreppnum. Það hefur örugglega verið tækifæri sem amma þráði en kannski ekki alveg besti tímapunkturinn þar sem hún var nú gift og átti tvær dætur. En skyldan og menntunarþráin kallaði og hún fór suður í eitt ár frá manni og eins og tveggja ára dætrum. Þegar amma kom til baka þekktu dætur hennar hana ekki og það tók tíma að aðlagast þessari konu aftur. Amma fór á milli bæja í Fljótunum til að taka á móti börnum, hvort sem var í hríðarbyl eða á sólríkum sumarnóttum þegar kallið kom og amma tilbúin að fara af stað. Aðstæður þeirra barna sem hún tók á móti voru betri en þær sem biðu hennar árið 1918. Menntun var orðin meiri og tækifæri ungs fólks voru önnur og fjölbreyttari. Lýðveldið Ísland dafnaði.

En hvers vegna er ég að rifja þetta hér upp? Ég vona að þið sem eruð hér getið sett ykkur aðeins í þau spor sem amma mín og foreldrar hennar voru í fyrir 100 árum. Ekkert rafmagn, enginn sími, engar þvottavélar, heitt eða kalt vatn í krana var munaður, stundum ekki til matur, heilbrigðisþjónustan takmörkuð, 46% ungabarna dóu á fyrsta ári og lífslíkur kvenna var 58 ár. Menntun var takmörkuð en skólaskylda 10-14 ára barna var sett á árið 1908. Það var hægt að fara í Kvennaskólann í Reykjavík, Menntaskólann á Akureyri og Lærða skólann í Reykjavík. Nýbúið að stofna Háskóla Íslands, iðnskóla og landbúnaðarskóla ásamt því að Stýrimannaskólinn og Ljósmæðraskólinn voru teknir til starfa. Námstækifærin á þessum árum voru meiri fyrir karla en konur.“

Tæknibyltingin
Tækniframfarirnar á síðustu árum og áratugum hafa verið gífurlegar, sagði Sigríður Huld, og áfram verða hraðar tæknibreytingar. Í því ljósi þurfi að huga vel að breyttri menntun og mikil áskorun sé í því fólgin að halda í við breytingarnar inni í framhaldsskólunum. „Við vitum að það verða breytingar en við vitum ekki alltaf í hverju þær verða fólgnar - en eitt er víst að þær eru hraðari en við eigum að venjast og eigum kannski oft erfitt með að fylgja þeim eftir. Hvað sem verður er alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu samfélagi. Áhersla skólanna verða að vera meiri í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, kenna meira um alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi og efla jafnrétti í víðum skilningi,“ sagði Sigríður Huld. Hún sagði að brottfall í framhaldsskólum og af vinnumarkaði væri mikið áhyggjuefni og rannsóknir bendi til þess að einn af stóru þáttum sem hægt sé að vinna með til að koma í veg fyrir brottfall sé að hafa skýra lýðheilsustefnu með áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir gegn þeim þáttum sem stuðli að því að ungt fólk hverfi frá námi. „Nýlega ræddu Norræna velferðarnefndin og Norræna þekkingar- og menningarnefndin hvernig hægt væri að takast á við brottfallið og niðurstaða þeirra er sú að svo að takast megi með árangursríkum hætti á við þessar áskoranir sé jafnframt mikilvægt að félagsþjónustu- og menntageirar vinni saman og axli sameiginlega ábyrgð á því vandmeðfarna verkefni að draga úr brottfalli. Áskorunin er mikil en við verðum að bregðast við þannig að sá árangur sem síðustu 100 ár hafa gefið Íslendingum fari ekki til baka. Framhaldsskólar hafa skyldu gagnvart því að þjálfa nemendur í lýðræðislegum vinnubrögðum og að kenna þeim umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra. Eins að þeir þekki réttindi sín en ekki síður skyldur til samfélagsins. Hluti af samfélagslegri umræðu er að geta sett sig í spor annarra og kunna að ræða og virða mismunandi skoðanir. Það er jafnfram mikilvægt að kenna  ungu fólki að standa með sjálfu sér og þora að hafa skoðanir og tjá þær. Fjölbreytileikinn er mikilvægur og við verðum að undirbúa ungt fólk undir að heimurinn er ekki bara svartur eða hvítur - svona eða hinsegin eða að allir þurfi að fylgja sama straumnum,“ sagði skólameistari.

Viðurkenningar

Verðlaun fyrir bestan árangur í samfélagsgreinum, veitt úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar: Birkir Andri Stefánsson

Verðlaun fyrir bestan árangur á sjúkraliðabraut, gefin af Sjúkrahúsinu á Akureyri: Katla Snorradóttir

Verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum matreiðslu, gefin af Klúbbi matreiðslumeistara á Norðurlandi: Sigurður Rúnar Guðmundsson

Verðlaun fyrir bestan árangur í ensku, gefin af SBA-Norðurleið, og fyrir bestan árangur í íslensku, gefin af Pennanum Eymundsson: Margreti Rún Auðunsdóttur

Verðlaun fyrir bestan árangurí hönnunar- og textílgreinum á listnámsbraut, gefin af  Kvennasambandi Eyjafjarðar: Guðrún B. Eyfjörð Ásgeirsdóttir og Guðbjörg Helga Aðalsteinsdóttir

Verðlaun fyrir bestan árangur í greinum sem tengjast heilbrigði og lýðheilsu, gefin af Embætti landlæknis, í tilefni af því að VMA tekur þátt í verkefninu heilsueflandi framhaldsskóli sem er stýrt er af Embætti landlæknis: Katrín María Árnadóttir

Verðlaun fyrir bestan árangur í rafvirkjun. Viktor Ólason hlaut verðlaun fyrir bestan árangur í rafvirkjun - skólaleið, gefin af Ískraft, og Fjóla S. Árnadóttir fyrir bestan árangur í rafvirkjun – meistaraleið, gefin af Rönning.

Hvatningarverðlaun VMA, gefin af Gámaþjónustunni, eru veitt nemanda sem hefur verið fyrirmynd í námi, sýnt miklar framfarir í námi, starfað að félagsmálum nemenda, haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið eða verið sér, nemendum og skólanum til sóma á einhvern hátt: Nanna Soffía Jónsdóttir, sem hefur á námstíma sínum sýnt seiglu, mikinn dugnað og elju til að ná markmiðum sínum þrátt fyrir veikindi.

Verðlaun fyrir bestan árangur í myndlistargreinum listnámsbrautar, gefin af Slippfélaginu, og verðlaun fyrir bestan árangur á stúdentsprófi, gefin af A4: Maríanna Ósk Mikaelsdóttir.

Blómvendir til þeirra nemenda sem hafa setið í stjórn Þórdunu eða komið með öðrum hætti að félagslífinu í skólanum: Auðunn Orri Arnarsson,Eygló Ómarsdóttir, Ólöf Inga Birgisdóttir, Einar Örn Gíslason og Haukur Sindri Karlsson


Ávarp brautskráningarnema og tónlistaratriði
Eygló Ómarsdóttir, nýstúdent af íþrótta- og lýðheilsubraut, flutti ávarp brautskráningarnema.  

Félagar í Leikfélagi VMA flutti atriði úr söngleiknum Bugsy Malone, sem verður sýndur í Hofi í febrúar 2019. Einnig söng nýstúdentinn Sunna Björk Þórðardóttir lagið “Á annan stað” úr leikritinu Í hjarta Hróa hattar. Lagið er eftir Sölku Sól, Arnon Stein og Örn Ými en textinn er eftir Sölku Sól.