Notaður tölvubúnaður úr VMA fær framhaldslíf í skóla í Bobo-Dioulasso í Búrkína Fasó
Á síðasta ári var tölvubúnaður í VMA endurnýjaður, fartölvur leystu af hólmi stofutölvur og skjái. Um eitthundrað tölvur, sem var skipt út í VMA, munu síðar á þessu ári fá nýtt hlutverk í skólanum Ecole ABC de Bobo í Bobo-Dioulasso, næststærstu borg Búrkína Fasó í vesturhluta Afríku, þar sem búa um 540 þúsund manns.
Yfirgripsmikið starf ABC barnahjálpar í Bobo-Dioulasso
Á annan áratug hefur ABC barnahjálp á Íslandi lagt sitt af mörkum við skólastarfið í þessum leik-, grunn- og framhaldsskóla í Bobo-Dioulasso og eru forstöðumenn hans íslenskir, Hinrik Þorsteinsson og Guðný Ragnhildur Jónasdóttir. Þau stýra skólanum og uppbyggingarstarfinu þar í samstarfi við heimafólk. ABC barnahjálp á Íslandi er fjárhagslegur bakhjarl þessa skólastarfs og er það eitt af þeim verkefnum sem ABC barnahjálp á Íslandi styður. Markmiðið með starfi ABC barnahjálpar er að gefa fátækum börnum tækifæri til þess að mennta sig og efla þau og styrkja í lífinu.
Sex manna leiðangur til Búrkina Fasó í janúar sl.
Einir af af þeim fjölmörgu styrktarforeldrum á Íslandi sem hafa lagt þessu starfi ABC barnahjálpar í Búrkína Fasó lið eru hjónin Jóhanna S. Norðfjörð og Haraldur Pálsson á Akureyri, eigendur pípulagningafyrirtækisins Áveitunnar. Þau hafa farið í sjö ferðir til Bobo-Dioulasso síðan 2015 og lagt starfi ABC lið með ýmsum hætti, bæði í Ecole ABC de Bobo skólanum og utan hans. Í janúar sl. fóru þau þangað niður eftir með fjórum öðrum, feðgunum Adam Ásgeiri Óskarssyni, fyrrverandi kennara og kerfisstjóra við VMA, og Ásgeiri Andra Adamssyni, sem starfar sem pípulagningamaður hjá Áveitunni, Jóni Sverri Friðrikssyni, sjúkraflutningamanni á Akureyri, og áðurnefndum Hinriki Þorsteinssyni. Eitt af stórum verkefnum sem unnið er að í tengslum við skólann er að veita vatni úr borholu út á akra þannig að unnt sé að tryggja ræktun á grænmeti og annarri fæðu allt árið en ekki aðeins á regntímanum, sem er yfirleitt í um þrjá mánuði. Þessu verkefni stýrðu pípulagnamennirnir Haraldur og Ásgeir Andri í þessari ferð í janúar.
Gleði og þakklæti
Adam Ásgeir Óskarsson dregur ekki dul á að ferðin til Búrkína Fasó hafi verið afar merkileg og ógleymanleg upplifun.
„Ég neita því ekki að ég varð fyrir ákveðnu menningarsjokki að koma þarna. Auðvitað hafði ég heyrt eitt og annað um land og þjóð en kannski má segja að þetta hafi verið frumstæðara en ég bjóst við. En hins vegar upplifði ég það mjög sterkt hversu glaðir og óendanlega þakklátir allir eru þarna. Við vorum í Búrkina Fasó í átján daga og á þeim tíma varð ég aldrei vitni að ágreiningi eða leiðindum milli fólks.
Ég hafði áður komið til Namibíu og Suður-Afríku en þá var ég á öðrum forsendum og sem ferðamaður. Þá kynntist ég ekki daglegu lífi fólks og menningu eins og ég fékk þarna beint í æð.
Skólasamfélagið í þessum skóla í Bobo vil ég lýsa sem einni stórri þúsund manna fjölskyldu. Samheldnin og andinn er slíkur. Og því má ekki gleyma að skólinn og búskapurinn og ræktunin sem honum tengist hefur áhrif langt út fyrir skólann. Það er áætlað að á áhrifasvæði skólans, ef svo má segja, séu um tíu þúsund manns. Með öðrum orðum nýtur tugur þúsunda manna skólastarfsins á einn eða annan hátt. Þetta starf skiptir því alveg gríðarlega miklu máli. Ég get nefnt í þessu sambandi að á meðan við dvöldumst þarna gaf skólasamfélagið fólki í neyð í nágrenninu um tuttugu tonn af maís. ABC kaupir mikið magn af maís til þess að gefa fólki á svæðinu. Þannig er ABC ekki aðeins þátttakandi í skólastarfi á svæðinu heldur er einnig að leggja sitt af mörkum með því að gefa fólki mat.
Skólasvæði Ecole er í fátæktarhverfi í Bobo-Dioulasso og skólinn er með tvö önnur svæði á sínum snærum, í töluverðri fjarlægð frá honum. Á öðru svæðinu er svínabú og eggjaframleiðsla, sem reyndar er í lamasessi eins og er vegna fuglaflensu. Svínaræktin er hins vegar að komast aftur af stað eftir svínaflensufaraldur. Þarna er sem sagt kjöt- og eggjaframleiðsla og er hún seld til þess að kosta matinn fyrir krakkana í skólanum. Á þessu svæði, sem hefur verið kallað Lífland, er líka rekin heimavist fyrir ungar stúlkur sem einhverra hluta vegna hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Þarna er borhola og því er aðgangur að neysluvatni. Á öðru svæði, sem hefur verið kallað Gósenland og er fimm hektarar að stærð, er ætlunin að koma á fót akuryrkju með ræktun á ávöxtum og matvælum eins og maís, hnetum og baunum. Þar er líka borhola og tveir vatnsturnar og í þessari ferð í janúar var unnið að því að tengja þetta allt saman, koma 20 þúsund lítra vatnstönkum upp í hvorn vatnsturn og einnig var grafið fyrir tveimur vatnsþróm sem eiga að rúma rúm 50 tonn af vatni. Á daginn er dælt upp úr borholunni og vatnstankarnir og þrærnar fylltar og vatnið á síðan að nýta til þess að vökva allt svæðið. Eftir heimsókn okkar núna verður unnt að rækta á þessu svæði árið um kring í stað þriggja mánuða á ári, yfir regntímann. Afrakstur ræktunarinnar verður bæði nýttur fyrir krakkana í skólanum og einnig verður hluti hans seldur eða gefinn.
Leik-, grunn- og framhaldsskóli
Þessi skóli í Bobo-Dioulasso er í senn leik-, grunn- og framhaldsskóli og eru nemendur samtals um eitt þúsund. Hann er í fátækasta hluta borgarinnar og eru nemendur valdir í hann. Eitt barn úr hverri fjölskyldu fær að sækja skólann með það að markmiði að þau geti miðlað þeirri þekkingu sem þau fá í skólanum til foreldra sinna og systkina. Börnin njóta heilsugæslu í skólanum og þar fá þau að borða eina máltíð á dag. Skólinn er að lang stærstum hluta rekinn með fjárframlögum styrktarforeldra í gegnum ABC barnahjálpina á Íslandi og það er vert að taka fram að það kostar 3.800 íslenskar krónur á mánuði að koma hverju barni í gegnum nám sitt í skólanum. Það skiptir verulega miklu máli að sem flestir leggi þessu lið og ég vil nota tækifærið og hvetja fólk að gera það í gegnum heimasíðu ABC barnahjálpar hér á landi. Öll fjárframlög til skólans og nemendanna koma að mjög góðum notum, það sá ég með eigin augum í heimsókn okkar þarna niður eftir í janúar sl.
Upplifun mín af skólastarfinu þarna var mjög sterk, starfsfólkið vinnur ótrúlegt starf við á margan hátt frumstæðar aðstæður. Skólavikan byrjar á kennarafundi kl. hálf sjö á mánudagsmorgni. Þar sitja kennarar í hring og leggja línurnar fyrir komandi kennsluviku. Að fundinum loknum, eftir að krakkarnir koma í skólann, er fánahylling og þjóðsöngurinn leikinn. Að taka þátt í þessu var mjög áhrifamikið og ógleymanlegt.
Í þessum leiðangri núna í janúar tókum við með okkur fulla ferðatösku af íþróttafatnaði sem fyrirtæki á Akureyri lét okkur í té. Fatnaðinn kunnu krakkarnir vel að meta. Það er mikil þörf fyrir fjöldamarga hluti þarna, m.a. hverskonar fatnað.
Landnám broskallaverkefnis Gunnars Stefánssonar í Búrkina Fasó
Ég hafði í aðdraganda ferðarinnar sett mig í samband við Gunnar Stefánsson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands og tölfræðing, sem hefur þróað svokallað broskallaverkefni. Um er að ræða kennslukerfið tutor-web, sem upphaflega var skrifað fyrir HÍ, og það hefur síðan verið m.a. notað í stærðfræðikennslu í skólum í Kenía. Kerfið hefur að geyma kennsluefni í m.a. stærðfræði. Launin fyrir að leysa stærðfræðiverkefni eru rafrænir broskallar og þetta hefur verið byggt upp sem mjög hvetjandi kerfi fyrir nemendur. Utan um verkefnið hefur verið stofnað Styrktarfélagið Broskallar og því hefur Kristján Gíslason, mótorhjólamaður og hringfari, m.a. lagt lið með myndarlegum hætti. Úr varð að ég fór með fimm spjaldtölvur og aðgang að þessu tutor-web kerfi til Búrkína Fasó sem framlag frá Brosköllum.
Hérlent lyfjafyrirtæki gaf sex notaðar fartölvur sem ég setti upp og tók með mér og tvær þeirra afhenti ég nemendum í háskóla í Bobo-Dioulasso, sem eru að læra líffræði og sögu. Hinar fjórar tölvurnar skildi ég eftir og þær munu rata í hendur annarra nemenda í þessum háskóla.
VMA-tölvubúnaðurinn í stað gamalla Windows-tölva
Í skólanum í Bobo-Dioulasso er tölvustofa með fimmtán ára gömlum Windows-tölvum. Vegna aldurs eru þær bæði orku- og plássfrekar. Rafmagn er þarna mjög af skornum skammti enda kemur það frá sólarsellum og er ótryggt. Tölvubúnaðurinn úr VMA, sem ég er þessa dagana að fara í gegnum og setja vélarnar upp áður en þær fara í gám til Bobo-Dioulasso, á að koma í staðinn fyrir þessar gömlu Windows-tölvur.
Skólinn er tengdur við internetið með örbylgjusambandi, sem er ekki ósvipað því sem var hér á landi í árdaga internetsins. Þessi takmarkaða tenging nýtist ekki nemendum í skólanum heldur aðeins skrifstofu hans. Ég hef hins vegar vonir um að úr þessu verði hægt að bæta áður en langt um líður og það erum við að skoða. Það gæti gerst með því að kaupa 5G tengingar af símafyrirtæki þarna, spurningin er hvort það myndi duga til þess að koma á einfaldri internettengingu. Einnig er gervihnattatenging ekki útilokuð en á þessu stigi málsins er sá möguleiki óljós. Þetta kostar auðvitað allt peninga og þeir liggja ekki á lausu hjá þessu fólki, kostnað sem þessu fylgir þyrfti þá að greiða í gegnum hjálparstarfið.
Burtséð frá því hvort tekst að koma þarna á ásættanlegu netsambandi, sem ég er reyndar sannfærður um að mun takast, spurningin er bara hvenær, kemur tölvubúnaðurinn úr VMA að mjög góðum notum fyrir þennan skóla og nemendur hans. Þeir geta lært að nota tölvur með nýrri hugbúnaði en nú er í boði í þeim tölvum sem þarna eru núna. Með öðrum orðum gerir þessi tölvubúnaður úr VMA það að verkum að við getum fært nemendur skólans í Bobo-Dioulasso nær nútímanum og komið þeim á þann stað að þeir geti séð hvað tölvutæknin getur gert.
Tvær af VMA-tölvunum hafði ég lokið við að setja upp og tók með mér og lét kerfisstjórann í skólanum hafa. Kunningja minn á Sauðárkróki, sem hýsir tölvukerfi, fékk ég til þess að lauma einum Moodle þjóni á tölvukerfið hjá sér. Því er nú til Búrkína Moodle þjónn á Sauðárkróki! Ég kenndi kerfisstjóranum í skólanum á þennan Moodle þjón og hélt kynningarfyrirlestur um Moodle fyrir fyrir þá kennara skólans sem kenna krökkum á framhaldsskólaaldri. Hugmyndin er að þegar nógu öflug internettenging verður komin verði skólinn tilbúinn til þess að nota Moodle.
Verkefnið núna er að yfirfara tölvurnar úr VMA og setja þær upp og gera klárar fyrir notkun í Bobo-Dioulasso. Búnaðurinn verður settur í gám sem Áveitan hefur yfir að ráða og hann verður fylltur með ýmsu öðru sem mun nýtast vel þarna niður frá. Við það er miðað að gámurinn verði kominn til Bobo-Dioulasso einhvern tímann á haustdögum.
Það er ekki nokkur spurning að tölvubúnaðurinn úr VMA mun koma að mjög góðum notum í Ecole ABC de Bobo skólanum og opna nýjar víddir í skólastarfinu. Þetta eru mest 5-6 ára gamlar HP, Lenovo og Dell tölvur og minnið í þeim hefur verið stækkað. Ég sé fyrir mér að tölvurnar muni nýtast nemendum vel í áratug í það minnsta. Ég fékk fyrirtækið Tengi hér á Akureyri í lið með mér og það lætur okkur í té svissa til þess að nota við uppsetningu á tölvunum.
Stærðfræðileikur úr smiðju Gunnars Hallssonar
Ég fékk tækifæri til þess að kenna stærðfræði í skólanum og til þess nýtti ég mér hugmynd að stærðfræðileik sem kemur úr smiðju Gunnars Hallssonar, sem er fæddur og uppalinn Akureyringur. Þessi stærðfræðileikur er einfaldur og til þess að framkvæma hann þarf aðeins tvö A4 blöð. Þennan leik lagði ég fyrir krakka í 8 ára bekk en í honum eru 52 nemendur, sem er reyndar óvenju fámennur bekkur! Skipt var upp í tíu hópa og síðan var stærðfræðileikurinn settur í gang og sló rækilega í gegn. Hugmyndin með leiknum er ekki síst sú að þeir krakkar sem hann læra geti farið heim með tvö A4 blöð og kennt foreldrum sínum og systkinum einföldustu reikningsaðferðir,“ segir Adam Ásgeir Óskarsson.