NSK kveikir áhuga nemenda
Eins og nemendum á almennri braut gefst nemendum á fyrstu önn á starfsbraut að taka áfangann NSK – náms- og starfskynning. Með því fá nemendur tækifæri til að kynnast námi á ýmsum verknámsbrautum skólans. Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir, kennslustjóri starfsbrautar, segir mikils virði fyrir nemendur að eiga kost á þessu og reynslan af áfanganum sé mjög góð.
Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni gefst nemendum á almennri braut kostur á að taka svokallaðan NSK - námsáfanga og það sama býðst nemendum á starfsbraut. Nemendur fást við verkefni og kynnast vinnubrögðum sem nýtast þeim í hinu daglegu lífi. Þeir fræðast einnig um starfsgreinarnar og atvinnu sem tengist þeim. Nemendur kynnast námi í hverri deild í u.þ.b. tvær vikur. Þetta á við um matreiðslu- og framreiðslunám, myndlistar- og handmenntanám, málmiðnnám, rafiðnnám, byggingaiðnnám, vélstjórnarnám, hárgreiðslu og lýðheilsufræði.
Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir segir að við kynningu nemenda á starfsbraut á hinum ýmsu brautum skólans kvikni oft áhugi á einhverri grein sem nemendur myndu vilja vinna við að námi loknu og geta nýtt sér það í náms- og starfsfræðslu (NSF) og atvinnuþjálfun (ATÞ) sem þeir fara í á þriðja og fjóða ári á starfsbraut.
Ragnheiður segir að áður hafi verið einn hópur úr starfsbraut í NSK en nú séu þeir tveir. „Reynslan af þessu er mjög góð og þetta er að mínu mati frábært tækifæri fyrir nemendur að kynnast hinum ýmsu starfsgreinum,“ segir Ragnheiður.