Ný nálgun í kortlagningum
Í dag, þriðjudaginn 23. febrúar, kl. 17:00-17:40 heldur suður-kóreska myndlistarkonan Seung hee Lee þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Urban remapping: Sensing map project.
Í fyrirlestrinum, sem fer fram á ensku, mun Seung hee Lee fjalla um nýja, listræna nálgun í kortlagningum. Út frá kenningum Heidegger er lagt til að kort af t.d. borg sýni ekki einungis byggingar og götur heldur einnig upplifanir og tilfinningar (e. sensing map) og hefur Lee unnið í verkefnum þar sem slík kort eru gerð af mismunandi stórborgum víða um heim.
Seung hee Lee stundaði nám í listum, arkitektúr og menningarfræðum í London en einbeitir sér nú að sjónlistum.
Þriðjudagsfyrirlestrar eru samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Ókeypis aðgangur er að fyrirlestrinum.