Fara í efni

Nýnemahópurinn óvenju fjölmennur - um þúsund nemendur í dagskóla

Nýnemar og forráðamenn þeirra í Gryfjunni í gær. Hér fer Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari yfir…
Nýnemar og forráðamenn þeirra í Gryfjunni í gær. Hér fer Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari yfir nokkur hagnýt atriði við upphaf skólaárs. Í dag er fyrsti kennsludagur haustannar samkvæmt stundaskrá.

Kennsla hefst í dag samkvæmt stundaskrá í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Sem næst 1000 nemendur hefja nám við skólann á haustönnog hefur þeim fjölgað töluvert frá fyrra ári. Nýnemar í skólanum eru á milli 250 og 260 og hafa ekki verið fleiri til fjölda ára. Til samanburðar hófu 215 nýnemar nám við VMA haustið 2023. Sigurður Hlynur Sigurðsson áfangastjóri segir að aldrei í 40 ára sögu skólans hafi verið jafn fjölbreytt námsframboð í skólanum og núna á haustönn.

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari segir að árgangur nýnema (f. 2008) á þessu hausti, sem lauk 10. bekk grunnskóla sl. vor, sé í stærra lagi og það skýri að hluta mikinn fjölda nýnema í skólanum. En ekki síður endurspegli þessi fjöldi nýnema aukinn áhuga nemenda á verk- og starfsnámi. Þessar myndir voru teknar í gær þegar nýnemar og forráðamenn þeirra komu í skólann og hittu umsjónarkennara sína.

Auk venjubundins náms í dagskóla á verknáms- og bóknámsbrautum halda áfram námshópar í pípulögnum (brautskráning í desember 2024), múrsmíði (brautskráning í maí 2025) og heilsunuddi (brautskráning vorið 2025) og þá mun áfram verða kennt í kvöldskóla í bæði húsasmíði (brautskráning vorið 2025) og rafvirkjun (brautskráning í desember 2024). Einnig heldur áfram í vetur nám matartækna, sem er blanda fjar- og helgarlotunáms (þriggja anna nám sem lýkur með brautskráningu vorið 2025). Núna á haustönn verður í fyrsta skipti boðið upp á kvöldskóla í listnámi, um er að ræða tveggja anna nám sem lýkur næsta vor. Tólf nemendur eru skráðir til náms og er unnt að bæta við nemendum.

Heimavist MA og VMA er fullbókuð í vetur. Í upphafi skólaárs verða þar 175 nemendur VMA og 145 nemendur MA.