Nýr hópur í múraraiðn
Núna á haustönn hóf nýr nemendahópur nám í múraraiðn við VMA en hún er undir hatti byggingadeildar skólans. Tíu nemendur eru í þessum þriðja námshópi sem Bjarni Bjarnason múrarameistari hefur fylgt í gegnum námið síðan 2015. Hópur númer tvö sem Bjarni kenndi fór í sveinspróf á vordögum 2022.
Múraraiðn er ein þriggja greina í byggingadeild sem nú eru kenndar, hinar eru húsasmíði og pípulagnir. Námið er sett upp sem lotunám og því sækja nemendur ekki dagskóla. Bjarni hittir nemendur tvisvar í viku, frá kl. 17 á fimmtudögum og frá kl. 13 á föstudögum. Þess á milli eru unnin verkefni til hliðar við hið daglega starf nemendanna á vinnumarkaði því allir eru þeir starfandi hjá fjórum fyrirtækjum í múrsmíði á Akureyri.
Bjarni segir að þetta sé fyrsti hópurinn sem hann fylgir í gegnum námið þar sem fylgt er frá byrjun til enda svokallaðri ferilbók. Í henni felst að nemendur þurfa að hafa lært mismunandi hluti hjá iðnmeistara til þess að geta farið í sveinspróf og þar með sett punktinn yfir i-ið og geta þá starfað formlega sem múrarar.
Námið tekur fjórar annir með vinnu og er fyrirkomulagið í stórum dráttum það sama, Bjarni hittir nemendur sína tvisvar í viku og á milli eru unnin ýmis verkefni.
Í gegnum tíðina hafa múrarar haft ansi mikið að gera og það hefur ekki breyst. En í tímans rás hefur starfið breyst töluvert. Nú áætlar Bjarni að flísalögn sé allt að 35% starfs múrara á Akureyri og hefur þetta hlutfall hækkað á undanförnum áratugum. Á höfuðborgarsvæðinu eru þess dæmi að múrarar sérhæfi sig í ákveðnum öngum múrsmíðinnar, flísalögn þar með talinni.