Fara í efni

Nýr námshópur í hársnyrtiiðn

Fyrstu skrefin stigin í námi í hársnyrtiiðn.
Fyrstu skrefin stigin í námi í hársnyrtiiðn.

Þegar einum kafla lýkur hefst sá næsti, það er gömul saga og ný. Í desember sl. brautskráðist námshópur í hársnyrtiiðn og núna í byrjun vorannar er nýr námshópur að hefja nám. Í honum eru þrettán nemendur og það vekur athygli að þar af eru fimm strákar. Sem er hreint ekki algengt því í gegnum tíðina hefur verið mikill kynjahalli í hársnyrtiiðninni, í sumum námshópum hafa bara verið stelpur. Harpa Birgisdóttir kennari minnist þess að áður hafi mest verið þrír strákar í námshóp svo þetta er nýtt met á námsbraut í hársnyrtiiðn í VMA.

Auk þessa nýja námshóps á sinni fyrstu önn í náminu er annar námshópur sem er núna á fjórðu önn. Í honum eru tíu nemendur. Að þessari önn lokinni á sá námshópur eftir tvær annir í náminu og útskrifast því vorið 2026.

Þegar litið var inn í kennslustund hjá Hörpu Birgisdóttur voru nemendur í þessum nýja námshópi að æfa sig í því að setja rúllur í hár – eitt af grunnatriðunum sem farið er í á fyrstu metrum námsins.

Eins og hér má sjá er nám í hársnyrtiiðn sex annir í skóla. Verklegi hluti námsins er umtalsverður en einnig eru nemendur í bóklegum grunnfögum eins og stærðfræði, íslensku og ensku.