Nýr námshópur í pípulögnum
Í byrjun þessa mánaðar þreyttu sautján nemendur sveinspróf - bóklegt og verklegt - í pípulögnum. Þegar einn hópur lýkur námi tekur annar við. Í byrjun vorannar hóf nýr þrettán nemenda hópur nám í pípulögnum. Sem fyrr heldur Hinrik Þórðarson pípulagningameistari utan um námið. Mikil ásókn var í námið og takmarkast fjöldi nemenda við hversu mörgum er unnt að koma fyrir í verklegri kennslu á sama tíma.
Til þess að geta sótt um nám í pípulögnum þurfa nemendur að hafa lokið einni önn í grunndeild byggingargreina, sem er sami grunnurinn og allir iðnaðarmenn undir hatti byggingargreina þurfa að hafa lokið. Síðan taka við þrjár annir í skóla og fjórða önnin er starfsþjálfun á vinnumarkaði. Hér eru nánari upplýsingar um námið.
Þeir nemendur sem nú voru að hefja nám í pípulögnum eru á ólíkum aldri og hafa sumir starfað í faginu um hríð, aðrir ekki.
Það er og hefur verið nóg að gera fyrir nýja faglærða pípulagningamenn og ekki horfur á að það sé að breytast. Atvinnumöguleikar þessa verðandi pípulagnamanna verða því að teljast góðir.