Fara í efni

Nýr námshópur í rafeindavirkjun

Nemendur í rafeindavirkjun hafa sérstaka stofu út af fyrir sig þar sem bróðurpartur kennslu þeirra í…
Nemendur í rafeindavirkjun hafa sérstaka stofu út af fyrir sig þar sem bróðurpartur kennslu þeirra í skólanum fer fram. Hér eru þeir í þungum þönkum með kennara sínum, Ara Baldurssyni.

Nýr námshópur í rafeindavirkjun hóf nám núna á haustönn en síðasti námshópur í þessari iðngrein brautskráðist við lok haustannar 2023. Rafeindavirkjun er þriggja anna nám og því munu þeir nemendur sem nú hafa hafið nám í rafeindavirkjun ljúka námi í desember 2025.

Til þess að komast í nám í rafeindavirkjun þurfa nemendur að hafa lokið fjögurra anna námi í grunndeild rafiðna. Nokkuð algengt er að nemendur útskrifist bæði sem rafvirkjar og rafeindavirkjar og eru t.d. tveir útskrifaðir rafvirkjar í þessum nýja nemendahópi í rafeindavirkjun.

Nýjung í náminu núna er starfsnám úti á vinnustöðum sem vitaskuld byggir á góðu samstarfi VMA og atvinnulífsins. Hugmyndin er að nemendur verði í starfsnámi í ákveðinn tíma á hverri önn hjá hinum ýmsu fyrirtækjum og stofnunum á Akureyri og fái þannig beint í æð fjölbreytt verkefni sem unnið er að í fyrirtækjunum.

Haukur Eiríksson brautarstjóri rafiðnbrautar VMA segir afar þakkarvert hversu vel atvinnulífið hafi tekið í óskir um starfsnám fyrir nemendur í rafeindavirkjun. Með þessu gefist nemendum kostur á að víkka út sjóndeildarhringinn og kynnast og reyna fyrir sér á hinum ýmsu sviðum. Um leið fái atvinnulífið góða innsýn í nám í rafeindavirkjun í VMA. Þetta samstarf sé því mjög jákvætt og beggja hagur. Allt verður þetta starfsnám skráð í ferilskrá nemenda en náminu ljúka þeir, sem fyrr segir, að rúmu ári liðnu með sveinsprófi.

Þau fyrirtæki og stofnanir sem nú þegar liggur fyrir að taka þátt í þessu samstarfi við VMA um starfsnám rafeindavirkjanema eru Sjúkrahúsið á Akureyri, AtNorth gagnaver, Tengir, Netkerfi og tölvur, Slippurinn – DNG, Rafeindaverkstæði Akureyrar og MAK – Menningarfélag Akureyrar. Einnig verður starfsnámsstöð í VMA þar sem kennararnir í rafiðn fara yfir ýmis sértæk atriði.

En á hvaða sviðum skyldu rafeindavirkjar hasla sér völl? Starfsvettvangurinn er afar fjölbreyttur. Þeir vinna t.d. við smíði rafeindatækja, hönnun og smíði rafeindarása, uppsetningu og mælingu á fjarskiptakerfum, uppsetningu netþjóna, bilanaleit í rafeindatækjum, forritun á örgjörvum og samþættingu við vélbúnað þar sem mótordrif og skynjarar eru notaðir til að framkvæma hin ýmsu verk.

Og margir útskrifaðir rafeindavirkjar láta ekki staðar numið eftir þetta nám. Mörg dæmi eru um þeir haldi áfram og ljúki einnig námi til starfsréttinda í rafvirkjun eða fari í tækninám og/eða háskólanám. Til dæmis eru fjórir úr síðasta námshópi í rafeindavirkjun nú á leið til náms í DTU í Kaupmannahöfn – Danmarks Tekniske Universitet.

Og víða liggja leiðir brautskráðra rafeindavirkja. Gott dæmi er Sigurður Bogi Ólafsson, sem lauk rafeindavirkjun frá VMA árið 2021. Haustið 2022 hóf hann nám í geimverkfræði í Embry-Riddle Aeronautical University í Arizona í Bandaríkjunum. Sigurður Bogi er dæmi um hvernig sú víðtæka menntun sem nemendur fá í rafiðngreinum, hvort sem er rafvirkjun eða rafeindavirkjun, auk stúdentsprófs, nýtist þeim vel til náms á háskólastigi.