Nýt námsins og starfsins
„Á mínum yngri árum var ég oft að fikta í eldhúsinu, það var alltaf eitthvað sem kitlaði. Ég er fæddur og uppalinn í Kópavogi og fór að grunnskóla loknum í MK og tók þar grunndeild matvæla. Flutti síðan með fjölskyldunni til Akureyrar og fékk starf á veitingastaðnum Strikinu. Þá var ekki aftur snúið,“ segir Kristinn Hugi Arnarsson, sem er einn þeirra nemenda sem nú stunda nám í VMA í þriðja bekk í matreiðslu. Þriðji bekkurinn er lokaáfanginn fyrir sveinspróf.
Kristinn Hugi tók 2. bekkinn í matreiðslunáminu í VMA og núna er hann farinn að sjá fyrir endann á náminu. Þriðji bekkurinn í matreiðslu hefur í vetur verið kenndur á tveimur spönnum, námið hófst í október og var fyrri spönnin því fyrir áramót en sú seinni núna eftir áramótin. Náminu lýkur um miðjan mars en lokapunkturinn yfir i-ið verður sveinspróf á vordögum.
Theodór Sölvi Haraldsson, matreiðslumeistari og kennari, sem hefur yfirumsjón með námi verðandi matreiðslumanna, segir að námsfyrirkomulagið, þ.e. þetta tveggja spanna kerfi, í vetur hafi reynst mjög vel. Nemendur starfi í faginu á ýmsum veitingastöðum og vel komi út að hafa námið á þeim tíma þegar færri ferðamenn séu á svæðinu – þ.e. frá síðari hluta október og fram í mars.
Þegar litið var inn í kennslustund hjá nemendum í þriðja bekk í matreiðslu og Theodóri kennara þeirra var Kristinn Hugi Arnarsson að flaka rauðsprettu, sem var á hádegismatseðlinum þennan daginn. Hann segir gott að fá þessa æfingu í náminu við að flaka fiskinn því á veitingahúsum komi hráefnið í langflestum tilfellum tilbúið á pönnuna eða í ofninn, enda sé flökun og frágangur á fiskinum tímafrek og það gefist einfaldlega ekki tími til þess að fullvinna hráefnið til eldunar.
Sem fyrr segir hóf Kristinn störf á veitingastaðnum Strikinu á Akureyri þegar hann flutti til Akureyrar og þar hefur hann starfað síðan, eða hálft fjórða ár. Hann segir starfið fjölbreytt og í því felist auðvitað að elda matinn fyrir viðskiptavini, skipuleggja matseðla og allt það sem rúmast innan verksviðs matreiðslumannanna.
„Auðvitað getur stundum verið stressandi, þegar mikið er að gera, að fá hlutina til þess að ganga upp. En ég hef gaman af því að vera á fullu og það sem skiptir öllu máli er að starfsandinn sé góður og allir vinni vel saman. Þannig er það á Strikinu og þar hef ég kynnst mörgum mjög skemmtilegum samstarfsfélögum og eignast góða vini. Vinna á veitingahúsi er fyrst og fremst samvinnuverkefni allra starfsmanna,“ segir Kristinn.
Spurður um hvers konar eldamennsku Kristinn kunni best við segir hann að asískir réttir hafi lengi heillað hann en núna séu eftirréttirnir tvímælalaust í uppáhaldi. „Það er eitthvað sérstaklega heillandi við eftirréttina. Þeir kalla á mikla nákvæmni og að vel sé hugað að öllum smáatriðum. Það er fátt betra en þegar hlutirnir heppnast fullkomlega,“ segir Kristinn.
En hvað tekur við að loknu sveinsprófinu? Kristinn segir það allt opið og hann velti því ekki fyrir sér núna. „Ég lifi í núinu og nýt þess sem ég er að gera. Núna er ég fyrst og fremst að einbeita mér að því að ljúka náminu og gera það eins vel og ég get,“ segir Kristinn Hugi og útilokar ekki að halda áfram á skólabekk, til hliðar við daglega vinnu sína í veitingageiranum, og ljúka stúdentsprófi.