Nýtt kynningarmyndband um VMA
Kynningar fyrir grunnskólanema á VMA verða með öðru sniði í ár en venja er til. Ástæðan er einfaldlega kórónuveirufaraldurinn. Vegna smitvarna og fjöldatakmarkana er ekki unnt að taka á móti skólahópum í heimsókn í VMA á þessu skólaári en þess í stað verður skólinn kynntur annars vegar með heimsóknum námsraðgjafannna Svövu Hrönn Magnúsdóttur og Helgu Júlíusdóttur í grunnskólana á Akureyri og hins vegar verða þær með kynningar á skólanum í gegnum fjarfundabúnað fyrir nemendur grunnskóla utan Akureyrar. Þessar kynningar Svövu og Helgu fyrir grunnskólanema verða á næstu vikum - sú fyrsta nk. föstudag.
Nemendur 9. bekkjar grunnskóla hafa á undanförnum árum heimsótt VMA og haft tækifæri til þess að kynnast skólastarfinu og því hafa flestir þeir nemendur sem nú eru í 10. bekk grunnskóla á Norðurlandi þegar heimsótt VMA. Þess er vænst að á næsta skólaári, þegar búið verður að bólusetja alla þjóðina og faraldurinn verður vonandi liðinn hjá, fari lífið aftur í sinni eðlilega farveg og nemendum bæði 9. og 10. bekk grunnskóla gefist þá kostur á að heimsækja VMA.
En þangað til er ástæða til þess að kynna sér VMA með því að horfa á þetta splunkunýja myndband um skólann.
Og einnig er nýlega kominn út kynningarbæklingur um skólann.
Þriðja og stærsta upplýsingaveitan um VMA er síðan auðvitað þessi heimasíða.