Öflugur stuðningur við byggingadeildina
„Það er ótrúlega dýrmætt fyrir okkur að fá slíkan stuðning úr atvinnulífinu,“ segir Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingadeildar VMA, en í síðustu viku fékk deildin afhentar með formlegum hætti tvær vélar sem nýtast mjög vel í kennslu. Annars vegar er um að ræða standborvél sem byggingadeild fékk á síðasta ári og er gjöf frá þremur fyrirtækjum á Akureyri; FerroZink, KEA og ÁK smíði. Hins vegar fékk deildin afhenta bandsög sem FerroZink selur með ríkulegum afslætti. Hér má sjá myndir af þessum tveimur vélum.
„Það er okkur mikilvægt að geta endurnýjað okkar tækjabúnað, það skiptir miklu máli að nemendur þjálfist í því að nota tækjabúnað sem þeir koma síðan til með að nota þegar komið er út í atvinnulífið. Bæði borvélin og bandsögin nýtast okkur mjög vel við kennslu. Við eigum eldri standborvél en sú nýja er mun fullkomnari og betri og það sama má segja um bandsögina, við eigum aðra eldri en þessi nýja ræður við þykkara efni og er mun öflugri,“ segir Helgi Valur.
Auk þess að leggja byggingadeildinni lið með þessum hætti hefur hún fengið ýmislegt fleira frá FerroZink á góðum kjörum og nemendur njóta þar afsláttar við kaup á ýmsum fatnaði og búnaði sem þá vanhagar um, ekki síst er lýtur að öryggismálum.
Reynir B. Eiríksson segir að FerroZink hafi þá stefnu að styðja við verknám. Það hafi lengi átt undir högg að sækja og því miður sé það svo að ríkið hafi ekki gert verknámsskólum kleift með nægilega háum fjárframlögum að endurnýja tækjabúnað sinn eins og nauðsynlegt sé.
„Þessi stuðningur okkar við byggingadeild VMA er til marks um þá stefnu okkur að styðja við verknám og hjálpa nemendum að þjálfa sig í að nota vélbúnað sem þeir koma til með að nota þegar þeir koma út á vinnumarkaðinn. Ég lít svo á að það sé samfélagsleg ábyrgð okkar sem störfum hér á svæðinu að standa við bakið á verknáminu í VMA. Það er allra hagur að skólinn sé sem allra best tækjum búinn til þess að tryggja fyrsta flokks nám og búa nemendur eins vel fyrir störf á vinnumarkaði og kostur er,“ segir Reynir og hvetur fyrirtæki sem tengjast verknámsbrautum skólans til þess að styðja vel við bakið á honum.
Á meðfylgjandi mynd, sem var tekin við formlega afhendingu vélanna í síðustu viku, eru frá vinstri: Ásta Guðný Kristjánsdóttir, fulltrúi KEA, Finnur R. Jóhannesson, framkvæmdastjóri ÁK smíði, Reynir B. Eiríksson, framkvæmdastjóri FerroZink á Akureyri, Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingadeildar VMA og Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA.