Og þá var kátt í Höllinni!
Gleðin var allsráðandi á íþróttadeginum í Íþróttahöllinni í gær þegar nemendur í VMA og Framhaldsskólanum á Laugum mættust í nokkrum íþróttagreinum: blaki, knattspyrnu, körfubolta, slagbolta og bandý. Stuðningsmenn létu vel í sér heyra - með gjallarhorni og trommuslætti - og settu skemmtilegan svip á daginn.
Nemendur og starfsfólk Framhaldsskólans á Laugum mættu til leiks í tveimur rútum og eiga skilið miklar og góðar þakkir og hrós fyrir að koma og taka þátt í gleðinni.
Fyrst og fremst var þetta til gamans gert en þó voru reiknuð heildarstig úr öllum kappleikjum dagsins. Þegar komið var að síðasta leiknum í bandý, sem var síðast á dagskránni, var ljóst að með sigri í leiknum myndi VMA vinna heildarkeppnina en með sigri Framhaldsskólans á Laugum í þessum síðasta leik yrðu skólarnir hnífjafnir að stigum. Og Laugakrakkar unnu leikinn og þar með var jafntefli í heildarstigakeppninni. Vel fór á því.
Auk íþróttakeppninnar var, eins og fram hefur komið dagurinn hugsaður sem góðgerðarviðburður. Allur ágóði af veitingasölu rennur til geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri.
Íþróttadaginn skipulögðu nemendur í áfanga í viðburðastjórnun í VMA og við framkvæmdina lögðu þeim lið m.a. íþróttakennarar í VMA. Allir sem að undirbúningi og framkvæmdinni stóðu fá ómælt hrós fyrir sína vinnu. Íþróttadagur er án nokkurs efa kominn til að vera - á nýjan leik.
Hér eru myndir úr Íþróttahöllinni í gær.
Og hér eru fleiri myndir úr Höllinni sem Hilmar Friðjónsson tók: