Óhjákvæmileg ákvörðun
Til stóð að halda árshátíð VMA að viku liðinni, 20. mars, og ef allt væri eðlilegt væri undirbúningur stjórnenda Þórdunu – nemendafélags nú í fullum gangi. Svo er hins vegar ekki, árshátíðinni þurfti að aflýsa, eins og komið hefur fram, vegna Covid 19 veirufaraldursins. Það var sameiginleg niðurstaða skólastjórnenda og nemendafélagsins.
Eyþór Daði Eyþórsson, formaður Þórdunu, segir að vissulega hafi þetta verið erfið ákvörðun því stefnt hafi í glæsilega árshátíð en fordæmalausar aðstæður á Íslandi og út um allan heim nú um stundir hafi gert það að verkum að ákvörðun um að blása árshátíðina af hafi verið óhjákvæmileg. Eyþór segir að hann finni ekki annað en að almennt sýni nemendur þessari ákvörðun skilning. Einnig hefur LAN-móti sem átti að hefjast í dag og vera um helgina verið aflýst af sömu ástæðu.
Eyþór Daði segir að það gildi um félagslífið í VMA eins og almennt í þjóðlífinu að við þessar aðstæður sé erfitt að gera langtímaáætlanir og ákveða viðburði fram í tímann, taka verði bara einn dag í einu og sjá hvað hann beri í skauti sér.
Eyþór segir það huggun harmi gegn að Tröll í uppfærslu Leikfélags VMA, þar sem hann var einmitt í einu af stærstu hlutverkunum, hafi gengið mjög vel. Fyrirfram hafi verið erfitt að ráða í hver aðsókn gæti orðið að nýju og óþekktu leikriti. „Þetta fór fram úr okkar björtustu vonum, fyrirfram gerðum við ekki ráð fyrir tveimur aukasýningum á verkinu,“ segir Eyþór.
Eðlilega er um fátt annað talað í samfélaginu en Covid 19 veirufaraldurinn. Eyþór segist ekki heyra samnemendur sína í VMA tala mikið um faraldurinn sín á milli en vissulega fari umræðan í samfélaginu ekki fram hjá þeim. En almennt segist hann ekki skynja mikinn ótta eða kvíða hjá nemendum vegna faraldursins.