Ókeypis námskeið fyrir nemendur í kvikmyndagerð nk. laugardag í VMA - Frestað
Námskeiðinu er því miður frestað. Stefnan tekin á lok janúar og verður nánar auglýst síðar.
Næstkomandi laugardag, 5. nóvember, býður KFH – Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna – upp á dags námskeið í kvikmyndagerð í VMA. Gengið inn að norðan. Námskeiðið, sem er opið bæði nemendum í VMA og MA, verður frá kl. 10 til 18 og er ókeypis. Áhugasamir skrái sig á námskeiðið hér á heimasíðu KFH - www.filmfestival.is.
Á námskeiðinu verður farið lauslega í gerð kvikmynda og myndbanda, t.d. kvikmyndatöku, handritsskrif, upptöku á leiknu efni og klippingu. Nemendur á námskeiðinu vinna mínútumynd og nota símann sinn til upptöku á kvikmynd sinni. Fyrir þá sem þurfa og vilja verður kvikmyndatökuvél á staðnum.
Leiðbeinendur á námskeiðinu verða Þór Elís Pálsson, Guðmundur Elí Jóhannesson og Carmela Torrini auk kennara frá MA og VMA.
Í lok námskeiðsins, kl. 18:00, verður boðið í bíó. Sýndar verða valdar stuttmyndir sem hafa unnið til verðlauna á fyrri KHF-hátíðum, t.d. bestu stuttmyndirnar á hátíðunum í mars sl., 2021 og 2018. Einnig verður sýnt brot úr kvikmynd sem verðlaunahafar á KFH-hátíðinni 2018 vinna nú að.
Eftirfarandi er dagskrá laugardagsins:
10:00 Opnun á námskeiði, stutt kynning á Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna – KHF.
10:10 Hvað er kvikmynd? Farið í stuttu máli yfir hvað kvikmynd er. Síðan verður fjallað um kvikmyndatöku og grundvallarreglur sem æskilegt er að fylgja við upptöku á lifandi efni.
10:20 Fyrirlestur um Þriðjungaregluna og Gullinsnið.
11:00 Æfing í kvikmyndatöku - stutt hlé.
11:30 Hvernig verður kvikmynd til? Hugmynd og handritsskrif. Handritsforrit kynnt fyrir nemendum eins og Celtx, Writerduet, Final Draft og Screenwriter. Farið yfir reglur á uppsetningu handrits.
12:00 Nemendur vinna stutta æfingu í handritsforritinu Celtx.
12:30 Hádegishlé.
13:30 Hugmyndavinna – hugarkort. Nemendur vinna hugmynd að einnar mínútu kvikmynd sem þeir síðan taka upp. Nemendur vinna saman að gerð nokkurra mínútumynda. Fjöldi verkefna fer eftir fjölda nemenda. Nemendur aðstoði hver annan, t.d. með því að leika í kvikmynd, sjá um myndatöku o.s.frv. Nemendur hafi í huga við upptöku það sem kennt var um morguninn.
14:30 Nemendur geta byrjað að klippa sína mínútumynd. Svigrúm gefið fyrir lengri upptökutíma.
14:45 Stutt sameiginleg yfirferð hvernig klippiforritið Premier Pro virkar. Nemendur fá síðan leiðsögn í klippingu hver sem vill, meðan klippiferlið stendur yfir. Einstaklingsleiðsögn.
17:00 Fyrsti frestur til að skila inn fullkláraðri mínútumynd. Haus og hali.
17:30 Lokafrestur til að skila inn mínútumyndinni.
17:45 Hlé
18:00 Sýning á afrakstri námskeiðsins – Mínútumyndahátíð.
18:30 Kynning á KHF – sýning á verðlaunamyndum Kvikmyndahátíðar framhaldsskólanna 2022, 2021 og 2018.
20:00 Hátíðarlok