"Öldungaráðið" í vélstjórninni
Nokkrum sinnum höfum við birt viðtöl hér á heimasíðunni við nemendur í VMA sem hafa drifið sig í nám eftir að hafa starfað árum saman á vinnumarkaðnum. Á vélstjórnarbrautinni stunda nú fjórir vaskir piltar nám sem allir eru í kringum fimmtugt. Tilgangur með náminu er sá hinn sami í öllum tilfellum; að ná sér í fullgild vélstjórnarréttindi.
Þetta eru Sigurður K. Skúlason, f. 1961, Örn Friðriksson, f. 1959, Guðmundur Kristjánsson, f. 1960, og Kristján Eiðsson, f. 1961. Tveir þeirra fyrrnefndu komu inn í þetta nám í gegnum svokallað raunfærnimat, sem hefur gert mörgum nemendum kleift að fara aftur í nám.
Sigurður K. Skúlason: „Ég hef starfað sem vélstjóri á sjó í um 20 ár en hef ekki full vélstjórnarréttindi. Núna er ég með pláss á Eyborgu í Hrísey. Til þess að geta starfað á stærri skipum þarf ég fjórða stig vélstjórnar en er núna með B-réttindi. Það er engin spurning að til þess að standa vel af vígi á vinnumarkaðnum þarf maður að hafa fjórða stigið. Ég er langt kominn með námið og stefni að því að ljúka því um næstu jól. Þegar ég byrjaði hér hafði ég ekki verið á skólabekk í tuttugu ár og því var þetta vissulega mikið átak. Ég byrjaði sl. haust og var hálfa önnina að komast í gang. Óneitanlega hafði maður tapað því að miklu leyti niður að gleypa svona þekkingu í sig, en þetta kom smám saman og er orðið miklu auðveldara en í byrjun. Maður lærir að læra.“
Guðmundur Kristjánsson: „Ég fór árið 1996, 36 ára gamall, hingað í skólann í vélstjórn. Áður hafði ég starfað við ýmislegt, t.d. keyrt vöru- og flutningabíla. Sömuleiðis hafði ég verið viðloða slökkviliðið í ein átta ár. Svo komst ég smám saman að raun um að ég hafði engin starfsréttindi. Þá ákvað ég að koma hingað í VMA í vélstjórnina og var hér í tvo vetur. Því lauk ég vorið 1998. Eftir það fór ég að vinna hjá Kælismiðjunni Frosti og fór þar á samning í vélvirkjun. Elías Þorsteinsson, sem nú er kennari hér í VMA, var þá framkvæmdastjóri Frosts og meistari minn þar. Ég tók starfstímann minn og ætlaði mér síðan aftur í skólann og ljúka náminu. En það dróst og úr varð að ég fór á sjó, var m.a. hjá Útgerðarfélagi Akureyringa, yfirleit á undanþágu sem vélstjóri á togurum félagsins. Síðan var ég m.a. hjá Kraftbílum. Árið 2009 sá ég auglýst fjarnám í vélstjórn hjá Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu og þeir buðu upp á að taka það sem upp á vantaði til þess að ná þessum svokölluðu B-réttindum – sem jafngildir þriðja stiginu gamla - að fara úr 750 kW í 1500 kW. Ég tók verklega hlutann bæði í Reykjavík og á Akranesi og var í lokin kominn hingað í VMA. Ég lauk sem sagt þessu námi vorið 2012 og tók sveinsprófið í vélvirkjun fyrir ári síðan. Mér fannst mér ganga það vel í því námi að ég ákvað strax að halda áfram og sjá hversu langt ég kæmist í velstjórninni. Og nú er ég farinn að sjá fyrir endann á þessu, ég gæti hugsanlega klárað þetta um næstu áramót en mér finnst líklegra að ég geri það vorið 2015. Þetta er auðvitað mikil vinna því ég hef verið að vinna allan þennan tíma með náminu, auk þess að vera með stóra fjölskyldu. Sem unglingur hafði ég satt best að segja ekki mikinn áhuga á skólagöngu og fannst tímanum sem í hana færi heldur illa varið. Miklu gáfulegra væri að verja tímanum í það að vinna og kaupa sér skellinöðru og snjósleða. En síðar sá ég að það hefði verið gáfulegra að fara að læra!“
Örn Friðriksson: „Ég var í gamla Vélskólanum í Reykjavík, mig minnir að ég hafi byrjað þar árið 1975. Svo lærði ég rafvirkjun og lauk sveinsprófi árið 1983. Ég tók síðan meistaraskólann í rafvirkjun og lauk honum árið 1999. Tók síðan sveinspróf í vélvirkjun árið 2010. Annars hef ég verið á sjó síðan 1987, fyrst á Sauðárkróki og síðan Ólafsfirði. Núna er ég á Sighvati Bjarnasyni í Vestmannaeyjum. Þetta er auðvitað mikið púsluspil en ég nýt mikils skilnings bæði skólans og vinnuveitandans og þannig getur þetta gengið upp. Ég stefni á að ljúka vélstjórnarnáminu hér um næstu jól. Vissulega var mikið átak að setjast aftur á skólabekk, ekki síst var töluvert átak að glíma við stærðfræðina.“
Kristján Eiðsson: „Ég byrjaði í vélvirkjun á Húsavík og kláraði hana. Tók síðan einn bekk í vélskóla en hef verið á sjó síðan 1987, lengstaf á skipum Bjarna Aðalgeirssonar á Húsavík en eftir að hann seldi útgerðina til Hornafjarðar hef ég starfað hjá Skinney-Þinganesi, er núna á Jónu Eðvalds. Ég var alltaf á undanþágu sem vélstjóri en síðan bauðst fjarnámið í Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu og ég skráði mig í það. Og í framhaldinu var mér boðið upp á að fá frí til þess að fara í námið hér, sem ég þáði og ég stefni að því að ljúka vélstjórninni um næstu áramót. Þegar maður er búinn að vera á sjó í vel yfir tuttugu ár er ágætt að fá frí og læra aðeins meira. Þetta er að sjálfsögðu mikil vinna en jafnframt mjög áhugavert.“