Ólík ásjóna mannsins
Engar tvær manneskjur eru hundrað prósent eins. Andlitsdrættir geta auðvitað verið sláandi líkir, t.d. hjá eineggja tvíburum, en einhver munur er samt til staðar.
Í áfanganum Módelteikning og líkamsbygging á listnáms- og hönnunarbraut spreyta nemendur sig á myndsköpun með ólíkum leiðum þar sem maðurinn er viðfangsefnið. Með eina af þessum leiðum gerðu nemendur Hallgríms Ingólfssonar tilrau þegar litið var inn í kennslustund. Þeir fengu í hendur höfuðkúpumódel og leir og verkefni dagsins var að móta andlit á höfuðkúpurnar. Gaman var að sjá hversu fjölbreytt og ólík útkoman var.
Í lýsingu á áfanganum segir m.a.:
Nemandinn þjálfar sig í að umbreyta þrívíðu formi mannslíkamans í tvívíða teikningu. Samvinna sjónskynjunar og hreyfingar handa er efld á ýmsa vegu. Nemandinn tileinkar sér aðferðir til að meta stærðir, stefnu, hlutföll og afstöðu mismunandi líkamsparta og raða saman í heildarmynd. Hann rannsakar á agaðan hátt byggingu og mótun forma mannslíkamans þar sem áhersla er á jafnvægi, hlutföll, hreyfingu og innsýn í þann samhljóm sem er milli módelteikningar og beina og vöðvabyggingar. Nemandinn beitir einnig frjálsri teikningu þar sem leikur, túlkun og tjáning er í forgrunni.Teiknað og mótað er eftir lifandi fyrirmynd, beinagrind og tvívíðum myndum t.d. með blýanti, kolum, bleki og leir.
Óhætt er að segja að eitt frægasta leirandlit á Íslandi fyrr og síðar sé svonefndur Leirfinnur, leirstytta sem gerð var í tengslum við rannsókn í Geirfinnsmálinu svokallaða, þekktasta glæpamáli Íslandssögunnar. Listakonan Ríkey gerði styttuna eftir lýsingu sjónarvotta af manni sem sagður er hafa hringt í Geirfinn Einarsson að kvöldi 19. nóvember 1974, kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Styttan var og er þjóðþekkt og er hún nú til varðveislu á Þjóðminjasafninu.