Öll verkin seldust á fyrstu klukkutímunum!
Úlfur Logason, sextán ára nemi á listnámsbraut VMA, opnaði sína fyrstu einkasýningu um liðna helgi og á fyrstu tímunum sem sýningin var opin seldi hann allar myndirnar – bæði olíumálverk og pennateikningar. Það er full ástæða til þess að fylgjast vel með Úlfi í framtíðinni – því hann er bara rétt að byrja.
Úlfur hóf nám á listnámsbraut VMA um síðustu áramót og þar segist hann finna sig vel og er hæstánægður
með námið.
Bróðurpartinn af myndunum á sýningunni, sem er í Kartöflugeymslunni, efst í Listagilinu, vann Úlfur á liðnum vetri – til hliðar
við námið í VMA. Það var því nóg að gera hjá honum og flest kvöld og helgar fóru í myndlistina – á
vinnustofunni sem hann kom sér upp úti í bílskúr í Munkaþverárstrætinu hjá foreldrum hans, Loga Má Einarssyni, arkitekt og
bæjarfulltrúa og Arnbjörgu Sigurðardóttur, lögmanni.
„Nei, ég bjóst alls ekki við svo góðum viðbrögðum,“ segir hinn ungi myndlistarmaður og bætir við að hann hafi alltaf haft á stefnuskránni að leggja myndlistina fyrir sig og þessi góðu viðbrögð fólks efli hann til frekari verka á þessu sviði.
Sýning Úlfs verður opin alla þessa viku og næstu helgi. Virka daga er hún opin kl. 16 til 18 og kl. 14-17 nk. laugardag og sunnudag.