Ómæld uppspretta fróðleiks
Oft er sagt að bókasafnið sé hjartað í VMA. Í því er fólginn nokkur sannleikur því bókasafnið er, má segja, í miðju skólans. Fyrir svo utan það að bókasafnið er staður visku og þekkingar – þar geta nemendur sest niður í ró og næði á milli tíma og unnið verkefni eða lesið sér til fróðleiks og yndis og ánægju.
Vissulega er það svo að með öllu því risasafni upplýsinga og gagna sem er að finna á veraldarvefnum hefur hlutverk bókasafna tekið breytingum. Ungt fólk sækir sér upplýsingar á netið í auknum mæli – annað hvort í gegnum símann sinn, spjaldtölvuna eða fartölvuna. Engu að síður er það svo að fullt af upplýsingum er ekki að finna á netinu – þær finna nemendur í bókum.
Í bókasafni VMA eru skráðar um fimmtán þúsund bækur og er þá síður en svo allt talið. Fastur liður hefur verið í upphafi náms í VMA að nemendur komi á safnið og fái fræðslu um hvað þar sé að finna, hvernig beri að haga leit að heimildum o.s.frv. Vegna Covid 19 tókst ekki að hafa bókasafnskynningar fyrir nema um helming nýnema sl. haust.
Eðlilega hefur verið rólegt á safninu á þessu skólaári en frá áramótum, eftir að nemendur allra brauta fóru að koma í skólann á nýjan leik, hefur lífið kviknað á bókasafninu. Þangað koma nú nemendur til þess að setjast niður og sækja sér fróðleik og/eða vinna verkefni af ýmsum toga. Eftir sem áður er sóttvarnareglum fylgt út í ystu æsar; grímuskylda og sprittnotkun og hópamyndun ekki leyfð.
Hildur Friðriksdóttir, sem starfar á bókasafninu með Hönnu Þóreyju Guðmundsdóttur, sem veitir safninu forstöðu, segir afar gleðilegt að fá nemendur aftur á safnið og sjá lífið vera smám saman að færast í eðlilegt horf. Hildur segir að starf þeirra Hönnu Þóreyjar sé margháttað en umfram allt vísi þær nemendum veginn í leit að upplýsingum og leitist við að leggja kennurum lið með ýmsum hætti við þeirra kennslu.
Sem fyrr segir er bókasafn VMA mikið að vöxtum og bókakosturinn ríkulegur. Einnig liggja þar frammi bæði innlend og erlend tímarit, ný og gömul. Safnkosturinn hefur byggst upp á löngum tíma eða allar götur frá því að skólinn var settur á stofn árið 1984. Á safninu er að finna allt milli himins og jarðar og er stór hluti bókanna til útláns en ýmsar handbækur, sem þurfa að vera til taks fyrir bæði nemendur og kennara, eru ekki lánaðar út.
Safninu hafa í gegnum tíðina borist margar veglegar bókagjafir og segja þær Hildur og Hanna Þórey að í þessum gjöfum séu bækur sem ekki sé að finna á öðrum söfnum. Sem dæmi nefna þær merkilegar bækur um vefnað sem afkomendur Elsu E. Guðjónsson, fyrrv. deildarstjóra textíl- og búningafræðideildar Þjóðminjasafns Íslands (1924-2010), og Þórs Guðjónssonar, fyrrv. veiðimálastjóra (1917-2014), gáfu safninu. Það sama má segja um bækur um húsgagnahönnun og húsgagnasmíði sem safnið fékk að gjöf frá Jóhanni Ingimarssyni – Nóa (1926-2016), húsgagnasmið og listamanni.
Hér má sjá nokkrar myndir af bókakosti bókasafns VMA. Lesbásar eru í lestrarsalnum og einnig er lesstofa þar sem krafa er gerð um að þögnin ein ríki og nemendur geti því sest niður og unnið án truflunar. Þessi bók er að sögn Hildar og Hönnu Þóreyjar sú þykkasta á safninu - risavaxin orðabók - einskonar tungumála-Google nútímans.