Óneitanlega skrítin staða
„Þetta er óneitanlega skrítin og öðruvísi staða en við höfum áður upplifað og við erum að reyna að fóta okkur í þessu. Sannast sagna þurfum við á margan hátt að finna upp hjólið því þetta er fordæmalaust,“ segir Anna Kristjana Helgadóttir, formaður stjórnar nemendafélagsins Þórdunu.
Gildandi sóttvarnareglur hafa gjörbreytt skólastarfinu og það á líka við um félagslíf nemenda. Hópamyndun er ekki heimil sem gerir það að verkum að ýmsir viðburðir í t.d. Gryfjunni eru ekki leyfðir. Anna Kristjana segir að í þessu ljósi þurfi að hugsa hlutina upp á nýtt og leita lausna. Ljóst sé að við núverandi aðstæður sé ekki unnt að efna til viðburða í skólanum og öll þau skref sem nemendafélagið taki í félagslífinu verði unnin í nánu samstarfi við skólayfirvöld.
Anna Kristjana segir að eitt af því sem sé til skoðunar sé að streyma viðburðum á netinu en engar ákvarðanir hafi verið teknar í þeim efnum, enda fáir dagar frá skólabyrjun. Ekki var unnt að efna til nýnemadaga vegna sóttvarnareglna en sem sárabót afhenti nemendafélagið nýnemum, þegar þeir komu í skólann í lok síðustu viku, poka með ýmsu góðgæti.
Þrátt fyrir þær sóttvarnareglur sem eru í gildi var leikhúsum í landinu heimilt frá miðnætti að hefja æfingar á ný. Þetta gildir þá líka um til dæmis Leikfélag VMA. Að viku liðinni verður upplýst hvaða leikrit Leikfélag VMA hyggst setja upp á þessu skólaári. Ef allar áætlanir standast er ætlunin að frumsýna á vorönn. Nánar um það síðar.
Óskað eftir nemendum til starfa í stjórnir Þórdunu og ýmissa félaga
Þórduna hefur auglýst eftir nemendum til starfa í félagslífinu í vetur – annars vegar tveir meðstjórnendur og fulltrúi nýnema í stjórn Þórdunu og hins vegar fólk til þess að stýra starfinu í undirfélögum Þórdunu – sjá hér.