Önnur nálgun í stærðfræðikennslu
Það er gömul saga og ný að stærðfræðin er mörgum nemendum ansi tormelt og þeir eiga erfitt með að komast yfir þann þröskuld. Eins og með önnur námsfög er afar einstaklingsbundið hvernig nemendum gengur að glíma við stærðfræðina en trúlega er hún þó það fag sem flestum reynist erfitt einhvern tímann á námsferlinum. Hilmar Friðjónsson, kennari í VMA, nálgast stærðfræðikennsluna á eilítið annan hátt en gengur og gerist. Hann hefur verið að þróa stærðfræðikennslu sína með því að nota ipad sem hjálpargagn, bæði til að varpa skýringarmyndum upp á tjald og einnig í einstaklingskennslu. Hann kýs að hafa ekki fulla birtu í kennslustofunni þegar hann kennir stærðfræðina og þá notar hann tónlist þegar nemendur eru að reikna dæmi. Hilmar segist eiga eftir að gera úttekt á gildi þessarar kennsluaðferðar en sín tilfinning sé að hún virki mjög vel. Nemendur mæti mjög vel í tímana og meðtaki almennt vel það sem hann beri á borð fyrir þá.
„Ég hef verið að þróa þetta í nokkur ár. Til að byrja með var ég með litla tússtöflu með töflupenna og nálgaðist maður á mann kennsluna með þeim hætti. Ipadinn kom síðan fram með töfluforrit sem bjóða upp á að gera það sama og tússtaflan. Það hins vegar tók töluverðan tíma að finna út úr því að tengja ipadinn við skjávarpann þannig að unnt yrði að varpa skjámyndinni á ipadinum upp á tjaldið. Ég hef notað gamlan ipad í tvö ár en í janúar á þessu ári fékk ég nýjan ipad – ipad Pro - sem virkar bæði mjög vel með því að varpa upp á tjaldið en ekki síður við að kenna maður á mann. Þetta gefur m.a. þann möguleika að setja upp dæmi í mismunandi litum og það veitir mörgum nýja sýn á það sem maður er að reyna að útskýra. Við lifum í svo sjónrænum heimi að t.d. algebra eða rúmfræði verður að fá að lifna við og þetta er að mínu mati góð aðferð til þess. Ég nota aldrei hvítan bakgrunn í ipadinum, heldur svartan. Þeir sem eru lesblindir eiga í erfiðleikum með að lesa texta á hvítum bakgrunni. Svo virðist sem þeim gangi betur að lesa texta eða myndir á dökkum bakgrunni. Ég get ekki notað ipadinn í hvaða stofu sem er til þess að varpa skýringarmyndum og dæmum upp og það heftir mig að sjálfsögðu dálítið, en ég hef verið að þreifa mig áfram með þetta í þessari stofu, M01. Hins vegar get ég notað ipadinn í hvaða stofu sem er við maður á mann kennslu. Að vera andspænis nemandanum með ipadinn gefur ýmsa möguleika. Ég get rétt nemandanum pennann og gefið honum færi á að skrifa á skjáinn sína útlistun á dæminu. Þá get ég bent honum á í hverju villan liggur, ef hún á annað borð er til staðar.
Varðandi lýsingu í kennslustofunni, þá er það þannig að of mikil birta virðist mér hækka spennustigið og það vil ég forðast í stærðfræðikennslu. Ég upplifi það svo að nemendum líði betur í mýkri birtu, en hún má þó að sjálfsögðu ekki vera það lítil að hún geri þeim nemendum erfitt fyrir sem ekki hafa fulla sjón.
Með því að kenna stærðfræðina með þessum hætti upplifi ég nemendur kvíðalitla eða jafnvel kvíðalausa og þeir mæta betur í tíma. Það að nemendur geti mætt kvíðalausir í stærðfræðitíma er mjög mikilvægt. Þeir nemendur sem vilja vinna saman að því að leysa dæmin geta gert það án þess að trufla aðra vegna þess að kennslustofan er stór. Og ég útiloka hávaða frá nemendunum með tónlist, sem ég hef á lágum nótum.
Ég tel að við getum nýtt okkur þessa tækni í hvaða námsgrein sem er en kennurum hefur almennt ekki gefist tækifæri til þess að nýta sér hana vegna þess að fjárhagslega leyfir skólakerfið ekki slíka kennslu í miklum mæli. Kennarar þurfa að ná leikni í að nota spjaldtölvu við kennsluna og það getur tekið tíma. Sjálfur er ég tæknilega sinnaður og ég sá tækifærin og vildi prófa þetta með minni eigin spjaldtölvu. Ég prófaði mig sjálfur áfram með þessa tækni og hafði þarfir nemandans að leiðarljósi, hvernig væri unnt að koma upplýsingum til hans á sem bestan hátt. Mér finnst ég sjá að þessi tækni við stærðfræðikennsluna geri það að verkum að þörf nemenda fyrir aukatíma í stærðfræði er ekki eins mikil og ella. Ég hef gert kennslumyndbönd til hliðar við kennsluna og sett inn á youtube og þangað geta nemendur sótt sér frekari útlistun á dæmum. Áreitið utan venjulegs kennslutíma er því minna með þessu móti,“ segir Hilmar Friðjónsson.