Opið hús á listnáms- og hönnunarbraut
Í dag, fimmtudag, er síðasti kennsludagur á haustönn og punkturinn yfir i-ið verður settur með opnu húsi á listnáms- og hönnunarbraut í kvöld frá kl. 20 til 21.30. Boðið verður upp á léttar veitingar í rými matvælabrautar.
Það er orðinn fastur liður að afrakstur vinnu nemenda á önninni sé sýndur á opnu húsi í lok hennar og það er sem sagt komið að því í kvöld.
Að venju verður fjölmargt áhugavert til sýnis enda listsköpun nemenda afar fjölbreytt. Bæði er um að ræða verk eftir nemendur í myndlistargreinum og textílgreinum. Hér má sjá agnarlítið brot af því sem nemendur hafa verið að fást við á önninni.
Í byrjun október unnu nemendur undir handleiðslu Hallgríms Ingólfssonar flott þrívíddarverk og nú hefur annað slíkt verk verið unnið á gólfi skólans, skammt frá norðurinngangi. Hér hefur sjálft sólkerfið verið útfært á skemmtilegan hátt í þrívídd. Þessar myndir tók Hilmar Friðjónsson af nemendum þegar þeir voru að vinna verkið.