Fara í efni

Opið hús á listnáms- og hönnunarbraut í kvöld - nemendur verða með kaffisölu

Hér eru nokkur sýnishorn af vinnu nemenda í sjónlistteikningu.
Hér eru nokkur sýnishorn af vinnu nemenda í sjónlistteikningu.

Það er fastur liður undir lok hverrar annar að nemendur á listnáms- og hönnunarbraut sýni afrakstur vinnu sinnar í hinum ýmsu áföngum - bæði á myndlistar- og textíllínu. Fjölbreytnin er mikil enda glíma nemendur við ólíka hluti í listsköpun sinni. Hér eru bara örfá sýnishorn af verkum sem verða á opna húsinu.

Í kvöld, þriðjudaginn 10. desember, kl. 19:30-21:00, er komið að hinu árlega opna húsi á listnáms- og hönnunarbraut. Verkin verða til sýnis í húsnæði brautarinnar á efri hæð. Og ekki bara verða sýnd verk dagskólanemenda heldur verða einnig í fyrsta skipti sýnd verk nemenda í Listnámi - kvöldskóla en eins og komið hefur fram er hann nú í fyrsta skipti í boði í VMA.

Og vert er að undirstrika að nemendur verða með kaffisölu til fjáröflunar fyrir menningarferð til höfuðborgarinnar í lok mars nk. þar sem ætlunin er að skoða eitt og annað sem tengist listsköpun, þar á meðal söfn og skóla. Nemendur lofa alvöru jólakaffi- og kökuhlaðborði! Ekki verður posi á staðnum en hægt verður að greiða með reiðufé og einnig verður gefið upp reikningsnúmer ef fólk vill millifæra.