Fara í efni

Opið hús og 40 ára afmælishóf í VMA 29. ágúst nk.

Frásögn í Degi á Akureyri af fyrstu skólasetningu VMA í Akureyrarkirkju 1. september 1984.
Frásögn í Degi á Akureyri af fyrstu skólasetningu VMA í Akureyrarkirkju 1. september 1984.

Árið 2024 er afmælisár í Verkmenntaskólanum á Akureyri enda hófst kennsla í skólanum fyrir réttum 40 árum. Þess verður minnst í þessari viku. Næstkomandi fimmtudag, 29. ágúst kl. 15-17 verður opið hús í skólanum og efnt til afmælishófs í Gryfjunni í VMA þar sem öllum sem áhuga hafa er boðið að koma og njóta þess sem verður boðið upp á – og um leið að kynna sér starfsemi skólans. Fyrrverandi nemendur og starfsmenn eru sérstaklega hvattir til þess að heimsækja skólann af þessu tilefni til þess að njóta samveru og rifja upp liðna tíð.
Síðdegis föstudaginn 30. ágúst hittast núverandi og fyrrverandi starfsmenn VMA og gera sér glaðan dag saman. Fyrrum starfsmönnum skólans er sérstaklega boðið til þessara samfunda.

Verkmenntaskólinn var á sínum tíma settur saman úr þremur skólum; framhaldsdeildum Gagnfræðaskólans á Akureyri, Iðnskólanum á Akureyri og Hússtjórnarskólanum á Akureyri.

Nokkuð langur aðdragandi var að stofnun VMA. Á árunum 1978-1981 urðu miklar umræður um framtíðarskipan í í framhaldsskólamálum á Akureyri og komu fram þrjár hugmyndir: Einn stór framhaldsskóli sem myndi sameina alla framhaldsskóla og -deildir undir einn hatt, í öðru lagi sú tillaga sem varð fyrir valinu, tveir framhaldsskólar - MA og VMA - og í þriðja lagi var rætt um þrjá skóla þ.e. MA, Iðnskólann og VMA sem hefði þá á sínum snærum verslunarsvið, uppeldissvið, íþróttasvið o.fl. En niðurstaðan var sem sagt sú að steypa saman í einn skóla undir merkjum VMA framhaldsdeildum GA, Iðnskólanum og Hússtjórnarskólanum.

Vöxtur VMA var strax mun hraðari en allar áætlanir gerðu ráð fyrir. Áætlað var að árið 1990 yrði fjöldi nemenda kominn upp í 600 en strax á öðru starfsári fór hann yfir þá tölu. Á fimmta skólaári voru nemendurnir orðnir yfir 900, auk um 150 nemenda í öldungadeild og nemenda í svokölluðu kjarnanámi og á námskeiðum á hússtjórnarsviði, í tölvufræðum o.fl. Heildarfjöldi nemenda VMA skólaárið 1988-1989 var því á þrettánda hundrað og því voru þrengslin mikil. Enn var kennt í Iðnskólahúsinu við Þórunnarstræti og í kennslustofum í Íþróttahöllinni og því var ansi snúið að koma heim og saman heilstæðum stundatöflum nemenda.

Í það heila má segja að byggingarsaga VMA hafi spannað um þrjá áratugi. Ingvar Gíslason, þáverandi menntamálaráðherra, tók fyrstu skóflustunguna að fyrsta skólahúsi VMA, húsi málmiðnaðarbrautar, þann 29. ágúst 1981. Það var síðan vígt 21. janúar 1983 og í því var kennd málmsmíði í hálft annað skólaár, undir hatti Iðnskólans á Akureyri.

Á þessu skólaári eru um eitt þúsund nemendur í dagskóla í VMA auk fjölda nemenda í fjarnámi, þ.á.m. nemendur í meistaraskóla. Eins og hefur ítrekað komið fram hefur húsnæði skólans sett honum skorður og af þeim sökum hefur ekki verið unnt að mæta spurn eftir verk- og starfsnámi, eins og kemur hér fram í frétt á RÚV í síðustu viku. Þess er vænst að með nýbyggingu við skólann sem var samið um í maí á þessu ári verði staðan önnur og unnt verði að taka við fleiri nemendum í verk- og starfsnám.

Sex hafa gegnt starfi skólameistara VMA í þau fjörutíu ár sem skólinn hefur starfað. Bernharð Haraldsson var fyrsti skólameistari skólans, hann var skipaður skólameistari 1. júní 1983 en skólinn var formlega stofnaður ári síðar, 1. júní 1984, með reglugerð sem Ragnhildur Helgadóttir, þáverandi menntamálaráðherra undirritaði. Fyrsta skólasetningin var 1. september sama ár, sjá meðf. úrklippu úr Degi á Akureyri frá 3. september 1984. Bernharð gegndi stöðu skólameistara til loka skólaársins 1999 er hann lét af störfum. Skólaárið 1988-1989 var Bernharð í orlofi í Kaupmannahöfn og var Baldvin J. Bjarnason, aðstoðarskólameistari, starfandi skólameistari það skólaár. Á síðasta starfsári Bernharðs sem skólameistari, 1989-1999, leysti Haukur Jónsson aðstoðarskólameistari Bernharð af í veikindaleyfi hans.
Hjalti Jón Sveinsson var skipaður skólameistari VMA árið 1999 og gegndi því starfi til ársloka 2015. Frá 1. janúar 2016 var hann skipaður skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík. Skólaárið 2011-2012 var Hjalti Jón í námsleyfi og var Sigríður Huld Jónsdóttir, sem hafði verið aðstoðarskólameistari frá 2006, skólameistari VMA þann vetur. Sigríður Huld var síðan skipuð skólameistari VMA 1. janúar 2016 og hefur gegnt því starfi síðan að frátöldu skólaárinu 2019-2020 þegar hún var í námsleyfi og Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari gegndi starfi skólameistara.

Í gegnum tíðina hefur starfsmannavelta verið lítil í VMA, sem er til marks um góðan starfsanda í skólanum í fjörutíu ár. Á þrjátíu ára afmælishófi skólans fyrir tíu árum,  4. október 2014, voru heiðraðir níu starfsmenn sem höfðu þá starfað við skólann frá upphafi. Tveir þeirra starfa enn við skólann, kennararnir Hálfdán Örnólfsson og Erna Hildur Gunnarsdóttir.