Opið hús og Vorhlaup VMA í dag
Það verður líf og fjör í VMA í dag, þriðjudaginn 23. apríl. Opið hús verður í skólanum og á sama tíma verður ræst í árlegt Vorhlaup VMA.
Opið hús
Opna húsið í VMA verður kl. 16:30-18:30. Allir eru velkomnir að koma og skoða skólann, fá kynningar á námsleiðum, opið verður inn á allar brautir og bæði kennarar og nemendur verða til viðtals. Nemendafélagið Þórduna býður upp á nýbakaðar vöfflur. Nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla, foreldrar þeirra og forsjáraðilar eru sérstaklega boðnir velkomnir á opna húsið.
Vorhlaup VMA
Ræst verður í árlegt Vorhlaup VMA í dag kl. 17:30 við austurinngang skólans. Tvær hlaupaleiðir eru í boði, 5 og 10 km. Það skal undirstrikað að þetta er að sjálfsögðu almenningshlaup og öllum opið, ekki bara nemendum og starfsmönnum VMA.
Eftir að vorið skall á með látum um liðna helgi eru aðstæður til að spretta úr spori og njóta hollrar útiveru með allra besta móti og veðurspá dagsins er hreint afbragð. Það er því nú eða aldrei!
Í 5 km hlaupinu verður keppt í opnum flokki, framhaldsskólaflokki og flokki 15 ára og yngri. Í 10 km hlaupinu verður keppt í opnum flokki og framhaldsskólaflokki. Tímataka verður með flögum.
Verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjú sætin í öllum flokkum karla, kvenna og kvára auk fjölda útdráttarvinninga. Verðlaunaafhending verður að hlaupi loknu í Gryfjunni í VMA kl. 18:30.
Forskráning er á netskraning.is til kl. 17.00 í dag. Einnig er hægt að skrá sig í dag kl. 14-17 í anddyri við austurinngang VMA gegn hærra gjaldi.
Skráningargjöld í forskráningu:
- 500 kr. fyrir grunn- og framhaldsskólanema
- 3000 kr. fyrir hlaupara í opnum flokki
Skráningargjöld í dag:
- 500 kr fyrir grunn- og framhaldsskólanema
- 4000 kr fyrir hlaupara í opnum flokki
Hlauparar fá gögn sín afhent í anddyri austurinngangs VMA kl. 14-17 í dag, 23. apríl.