Otto og Oddrún framhaldsskólameistarar í 10 km hlaupi
Skokkarar úr VMA gerðu góða ferð suður í Hafnarfjörð í vikunni þar sem þeir tóku þátt í hinu árlega Flensborgarhlaupi. Jafnframt því að vera almenningshlaup í bæði 5 og 10 km vegalengdum þar sem allir geta tekið þátt var 10 km hlaupið jafnframt framhaldsskólahlaup og því krýndir framhaldsskólameistarar. Og ekki þarf að orðlengja það að VMA á nú bæði framhaldsskólameistara í karla- og kvennaflokki í 10 km hlaupi – Otto Fernando Tulinius og Oddrúnu Ingu Marteinsdóttur.
Í hlaupahópi VMA voru 29 nemendur og með þeim fóru þrír kennarar, Valgerður Dögg Jónsdóttir, Jónas Jónsson og Ólafur H. Björnsson. Hópurinn fór suður á þriðjudaginn og síðdegis þann dag var hlaupið í Flensborgarhlaupinu. Hópurinn gisti síðan í Flensborgarskóla og hélt síðan norður aftur á miðvikudagsmorgun. Í alla staði var ferðin hin ánægjulegasta og móttökur Flensborgarskóla sem fyrr einstaklega ánægjulegar og vill hópurinn færa skólanum kærar þakkir fyrir.
Flestir úr VMA-hópnum hlupu 5 km. Bestan tíma VMA-nemanna áttu þeir Þórhallur Kristinn Reynisson, Arnar Freyr Ólafsson og Guðmundur Ísak Írisarson.
Otto Fernando Tulinius átti bestan tíma VMA-nema í 10 km hlaupi, 42:29 mín, sem jafnframt var besti tími framhaldsskólanema í karlaflokki. Otto er því framhaldsskólameistari 2016 í karlaflokki í 10 km hlaupi. Annan besta tíma VMA-nema í 10 km hlaupi átti Helgi Pétur Davíðsson, 42:55 mín, og skilaði þessi tími Helga, sem er fæddur árið 2000, aldursverðlaunum í flokki 17 ára og yngri. Oddrún Inga Marteinsdóttir varð framhaldsskólameistari kvenna í 10 km hlaupi á tímanum 59:01 mín, önnur VMA-kvenna var Katrín María Árnadóttir á tímanum 01:01.25 mín.
Hér má sjá úrslit Flensborgarhlaupsins og hér eru myndir sem voru teknar í þessari vel heppnuðu ferð VMA-skokkara suður í Hafnarfjörð.