Ottó Tulinius framhaldsskólameistari í 10 km hlaupi annað árið í röð
Nemendur úr VMA stóðu sig heldur betur vel í Flensborgarhlaupinu sl. þriðjudag. Þeir komu með marga verðlaunapeninga í farteskinu – m.a. framhaldsskólameistaratitil karla í 10 km hlaupi - og auðvitað líka góðar minningar, sem ekki er minna um vert.
Um þrjátíu manna hópur nemenda fór suður að morgni þriðjudags til þess að taka þátt í hlaupinu. Hinn þaulreyndi rútubílstjóri og kennari í byggingadeild, Kristján Davíðsson, keyrði rútuna suður og fararstjórar voru kennararnir Anna Berglind Pálmadóttir og Valgerður Dögg Jónsdóttir.
Flensborgarhlaupið fór fram seinnipart þriðjudags og var það jafnframt framhaldsskólamót í 10 km hlaupi. Ottó Fernando Tulinius gerði sér lítið fyrir og varð framhaldsskólameistari annað árið í röð á tímanum 39:52 mín. Ottó fékk heldur betur harða keppni því félagi hans úr VMA, Jörundur Frímann Jónasson, kom rétt á hæla hans í öðru sæti í framhaldsskólahlaupinu á tímanum 39:57 mín.
Í 10 km hlaupi karla 17 ára og yngri átti VMA keppendur í öðru og þriðja sæti. Hlynur Viðar Sveinsson og Sigurður Bergmann Sigmarsson komu í mark á sama tímanum; 43:47 mín.
Í 5 km hlaupi karla 17 ára og yngri varð VMA-neminn Mohamad Joumaa Naser í þriðja sæti á tímanum 22:25 mín.
Og ekki má gleyma enskukennaranum Önnu Berglindi Pálmdóttur. Hún varð í öðru sæti í 10 km hlaupi kvenna á tímanum 40:40 mín – um 20 sek á eftir sigurvegaranum, tuttugu ára yngri landsliðsstúlku í langhlaupum.
Hér eru öll úrslit í Flensborgarhlaupinu.
Þátttaka VMA í Flensborgarhlaupinu var á allan hátt til mikillar fyrirmyndar og er gaman að segja frá því að skólameistari Flensborgarskólans sá ástæðu til þess að senda Sigríði Huld skólameistara VMA skeyti þar sem hann tók fram að einstaklega ánægjulegt hafi verið að fá hópinn í heimsókn og hann hafi verið VMA til mikils sóma.