Pamela Swainson með þriðjudagsfyrirlestur
Pamela Swainson, myndlistarkona, heldur þriðjudagsfyrirlestur í dag, 8. nóvember, kl. 17:00-17:40 í Ketilhúsinu á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestursins er Familiar Strangers. Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis og öllum heimill.
Swainson fæddist í Manitoba í Kanada og er afkomandi fólks sem yfirgaf Ísland í kringum aldamótin 1900. Í fyrirlestrinum, sem fer fram á ensku, veltir hún fyrir sér spurningum um þjóðflutninga: Hver eru áhrifin á tengingu við stað, land, menningu og fjölskyldu? Hvað geymist í sálinni og flyst milli kynslóða? Fyrirlesturinn er kynning á sjónrænum könnunarleiðangri Swainson um tilfinningar, áföll og uppgötvanir og tengsl við fornar lendur.
Fyrirlesturinn í dag er í röð fyrirlestra síðdegis á þriðjudögum í vetur og er um að ræða samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.