Pistill um talnablindu vakti mikla athygli
Pistillinn á heimasíðu VMA í síðustu viku um talna- eða stærðfræðiblindu hefur vakið mikla athygli og umræðu. Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir, kennari, sem hefur aflað sér sérþekkingar á þessu sviði, segist í kjölfarið hafa fengið fyrirspurnir um málið, m.a. frá námsráðgjafa í öðrum skóla, um hvernig beri að snúa sér í þessum málum.
Í pistlinum hér á heimasíðunni, sem birtist 16. janúar sl., er greint frá því hvað talnablinda er og hvernig Verkmenntaskólinn hafi tekið á slíkum málum.
Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir segir að miðað við viðbrögðin sé hér greinilega um að ræða málefni sem hafi þurft að vekja athygli á.
Margir hafa tjáð sig um málið á fésbókinni, nær undantekningalaust á þeim nótum að þessi umfjöllun hafi verið löngu tímabær og afar þörf. Akureyri vikublað birti í heild sinni umræddan pistil af vefsíðu VMA á vefsíðu sinni og í athugasemdum við greinina eru nokkrir sem tjá sig um málið. Þar á meðal eru Ingibjörg Elín Halldórsdóttir frá Akureyri og Ásrún Magnúsdóttir í Reykjavík. Gefum þeim orðið:
Ingibjörg Elín Halldórsdóttir:
„Þetta kannast ég því miður aðeins of vel við. Fór ekki í framhaldsskóla í mörg ár vegna þess að ég þóttist viss um að geta aldrei útskrifast sem stúdent einungis vegna stærðfræðinnar. Fékk aldrei hærra en 2 á einu einasta stærðfræðiprófi alla mína grunnskólagöngu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, aðstoð og fl. Dreif mig í framhaldsskóla 22 ára gömul en geymdi alltaf stærðfræðina og endaði svo á að taka tvo áfanga í stærðfræði og eðlis- og efnafræði á sömu önn. Var með aukakennslu yfir allann veturinn og rétt svo náði lágmarki í báðum áföngunum. Útskrifaðist þrátt fyrir það með 8,7 í meðaleinkunn og verðlaun í tveimur greinum, svo ekki var vandmálið að ég gæti ekki lært. Hef ávallt heyrt að þetta sé bara sálfræðilegt, hræðsla við að takast á við vandamál sem ég hef búið mér til sjálf og þar fram eftir götunum. Tók talnalykil í VMA 2006 þar sem kom í ljós að stærðfræðiþekking mín var á við barn í 3.-6. bekk í grunnskóla. Þetta er vandamál sem þarf klárlega að taka betur á í skólunum og því miður er hætta á að nemendur sem almennt gætu talist “góðir” nemendur fari ekki í framhaldsnám einmitt vegna þess að þeir sjá fram á að geta aldrei útskrifast.”
Ásrún Magnúsdóttir:
„Við lesturinn á þesssari grein líður mér eins og hér sé bara verið að skrifa um mig og mína skólagöngu. Alla tíð gengið illa með blessuðu stærðfræðina og féll í einum áfana í framhaldsskóla enda lét ég gott heita þegar ég var búin með skylduáfangana og hef ekki lagt í neitt sem við kemur stærðfræðinni síðan þá. Sömu sögu má segja um alla eðlisfræði, náttúrufræði og efnafræði og er þessi örðuleiki minn með tölur og raungreinar m.a. ein af ástæðunum fyrir því að ég lagði aldrei í dýralæknanámið. En gekk aftur á móti brilliant vel með tungumál og þá sérstaklega enskuna.”