Styrkja Rauða krossinn með pokasölu
Eftir að þrengri sóttvarnareglur tóku gildi fyrir nokkrum vikum komu nemendur á starfsbraut í VMA eftir sem áður í skólann en skipta þurfti hópnum upp í nokkra minni hópa. Einn af hópunum, sem er kallaður „Blái hópurinn“, vann með kennurunum sínum að skemmtilegu verkefni sem fólst í því að mála og skreyta bréfpoka í anda jólanna. Í það heila eru þessir umhverfisvænu haldapokar sextíu talsins og eru þeir boðnir til sölu á starfsbrautinni – tveir saman – á 1000 krónur.
Rúsínan í pylsuendanum er að allur ágóði af sölunni rennur til Rauða krossins. Eitt af verkefnum hans á þessum tíma er árleg jólaaðstoð til fólks sem er í neyð og hefur lítið á milli handanna. Starfsbrautarkrakkarnir vilja leggja þessu góða málefni lið með pokasölunni.
Pokunum fylgja miðar með reikningsupplýsingum – kaupendur pokanna greiða fyrir þá með því að leggja þúsund krónur inn á reikning Rauða krossins. Seljist allir pokarnir, sem auðvitað er stefnt að, renna þrjátíu þúsund krónur til Rauða krossins vegna þessa verkefnis.