Pólitísk skilaboð í akrílverki
Undiraldan í akrílmyndverkinu „Harðstjóri“ eftir listnámsnemandann Axel Frans Gústavsson er óneitanlega þung. Hér eru heimsmálin aðal stefið, þjóðarleiðtogar dregnir fram í dagsljósið sem hafa verið þekktir sem einræðisherrar og/eða í hæsta máta umdeildir fyrir skoðanir og embættisfærslur. Þetta eru að sjálfsögðu, frá vinstri: Donald Trump Bandaríkjaforseti, Fidel Castro einræðisherra á Kúbu 1959-2008, Kim Jong-il, einræðisherra í Norður-Kóreu 1994-2011 og faðir núverandi einræðisherra, Kim Jon-un og Muammar Gaddafi, leiðtogi í Líbíu 1969-2011. Hér eru þeir fjórmenningarnir að baki múrvegg sem Axel segir að geti verið táknmynd fyrir hinn boðaða vegg Trumps á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og jafnframt tákni múrsteinarnir fólk sem mannréttindi hafi verið brotin á.
Axel Frans er nemandi á myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA og setur stefnuna á að ljúka námi í desember nk. Hann segist hafa valið að vinna framangreint akrílverk, sem hefur síðustu daga verið til sýnis á vegg gegnt austurinngangi VMA, því mikilvægt sé að myndlistin tali til fólks, ekki síst nú til dags.
Að loknu námi í VMA segist Axel Frans horfa til kvikmyndanáms í Reykjavík. Hann hafi lengi verið áhugamaður um kvikmyndir og langi til þess að virkja þann áhuga lengra. Námið í VMA hafi að hans mati verið góður grunnur fyrir kvikmyndanám. „Námið hér er mjög fínt og ég hef lært margt,“ segir Axel Frans.
Það er í takti við áhuga Axels á kvikmyndum að lokaverkefni hans verður vídeoverk sem hann hugsar sem innsetningu. Við verkið vinnur Jóhannes Stefánsson, sem einnig er nemandi í VMA, hljóðmyndir.