Polynorth leggur byggingadeild VMA lið
Það er gott að eiga góða að. Það sannaðist enn einu sinni í gær þegar Hjörleifur Árnason frá Polynorth á Akureyri færði byggingadeild VMA að gjöf frauðkubba til þess að nota við að steypa undirstöður undir sumarhúsið sem nemendur í byggingadeild munu í vetur glíma við að byggja. Áætlað er að reisa veggi hússins í næstu viku.
Hjörleifur Árnason segir að honum og Hrafni Stefánssyni eigendum Polynorth hafi runnið blóðið til skyldunnar því báðir hafi þeir stundað nám við VMA á sínum tíma. Hann segir að þeir hafi báðir byrjað í vélstjórn, Hrafn hafi lokið vélvirkjanáminu en hann hafi breytt um stefnu og farið í kjötiðnaðarmanninn. En síðustu tvö ár hafa þeir félagar rekið Polynorth sem framleiðir einangrunarplast og áðurnefnda frauðkubba sem Hjörleifur segir að megi lýsa sem legókubbum fyrir fullorðna. Þetta er snjöll og fljótleg lausn við að reisa veggi og einangrunargildið er ótvírætt.
Framleiðsla á einangrunarplasti á Akureyri á sér tæplega fjörutíu ára sögu. Plastás rak fyrirtækið lengi og síðan byggingarfyrirtækið B.Hreiðarsson um tíma en Hjörleifur og Hrafn tóku við rekstrinum árið 2021. Framleiðslan var kynnt á iðnsýningunni í Laugardalshöllinni um liðna helgi og segir Hjörleifur að hún hafi vakið mikla athygli og það hafi komið mörgum á óvart að slík framleiðsla væri hér á landi.