Púsla saman námi og handbolta
Það getur oft verið mikið púsluspil fyrir afreksfólk í íþróttum að stunda nám sitt með stífum æfingum og keppnisferðum. Tvær stúlkur í VMA, sem jafnframt eru handboltakonur í KA/Þór, hafa verið í æfingahópum í yngri landsliðum Íslands og segja að þær þurfi að skipuleggja tíma sinn vel til þess að sinna bæði náminu og þátttöku í íþróttum af kostgæfni. Þetta eru þær Aldís Ásta Heimisdóttir (f. 1999) sem stundar nám á íþrótta- og náttúrufræðibraut, og Svala Svavarsdóttir (f. 2000) sem er í grunndeild málmiðnaðar.
„Það hafði örugglega sitt að segja um áhuga minn á handbolta að systkini mín, Steinþóra Sif og Finnur, voru bæði í handbolta þegar þau voru yngri. Ég prófaði aðeins fótbolta en staldraði stutt við þar og einnig var ég töluvert í frjálsíþróttum – hástökki og spjótkasti. En innst inni vissi ég alltaf að ég myndi enda í handboltanum,“ rifjar Aldís Ásta upp. Hún er í meistaraflokki KA/Þórs sem nú trónir á toppi næstefstu deildar í kvennaboltanum og spilar þar stöðu leikstjórnanda.
Svala spilar hins vegar skyttu í 3. flokks liði KA/Þórs og bankar á dyrnar í meistaraflokknum. Eins og Aldís Ásta hefur Svala lengi æft handbolta og veit fátt skemmtilegra. Þær æfa að jafnaði sex sinnum í viku – boltaæfingar – þegar ekki eru leikir um helgar og til viðbótar eru þrjár styrktaræfingar í viku. Álagið er því mikið. Stefán Guðnason þjálfar 3. flokks stelpurnar en Jónatan Magnússon meistaraflokkinn.
Síðastliðið haust voru þær báðar í æfingahópum yngri landsliða og Aldís Ásta er þar enn og æfði stíft með jafnöldrum sínum milli jóla og nýárs. Framundan er undankeppni HM sem verður spiluð í Vestmannaeyjum. Ekki er búið að velja endanlegan hóp en auðvitað bindur Aldís Ásta vonir við að verða fyrir valinu. „Það kemur bara allt í ljós. Þangað til einbeiti ég mér að því að standa mig vel með KA/Þór,“ segir hún.
„Það fer auðvitað mikill tími í handboltann og því nýti ég allar þær eyður sem ég hef í skólanum til þess að læra. Eftir VMA langar mig til þess að fara í sjúkraþjálfarann. Þess vegna hef ég verið að bæta við mig fögum á náttúrufræðibraut,“ segir Aldís Ásta.