Ræddu samstarf skóla og vinnustaða í ApprEUnance Evrópuverkefni
Í liðinni viku voru tólf gestir í VMA frá fimm Evrópulöndum sem taka þátt í Erasmus + verkefninu ApprEUnance. Rauði þráðurinn í verkefninu er samstarf skóla og vinnustaða. Yfirskrift verkefnsins segir til um viðfangsefnið, apprenticeship og alternance eða verknám/námssamningar til skiptis á vinnustað og í skóla.
Af hálfu VMA tók þátt í verkefninu Jóhannes Árnason kennari en fjórir þátttakendur komu frá Portúgal, tveir frá Slóveníu, tveir frá Írlandi, einn frá Belgíu og þrír frá Frakklandi. Tveir af þessum tólf erlendu þátttakendum hafa áður komið í VMA.
Verkefninu er stýrt af MFR - Maison Familial Rurale í Frakklandi, sem er einskonar regnhlífarstofnun eða kerfi yfir fjölmarga litla dreifbýlisskóla þar í landi sem reknir eru í samstarfi við fjölskyldur á hverju svæði.
Kóvidfaraldurinn setti þetta Evrópuverkefni í biðstöðu eins og mörg önnur verkefni en er nú komið í fullan gang á ný. Áætlað er að því ljúki að ári liðnu.
Oliver Gineste, sem er yfir alþjóðlegu samstarfi MFR – Maison Familial Rurale í Frakklandi þekkir vel til Íslands og VMA eftir að hafa komið hér áður til þess að fylgja eftir nemendum sem hafa verið hér í starfsþjálfun og einnig hefur hann tekið þátt í og stýrt fundum í samstarfsverkefnum
Eitt þeirra Evrópuverkefna sem VMA tók þátt og Oliver Gineste kom einnig við sögu var VET4Change, sem fjallaði aðallega um hvernig og hvort starfsnámskerfi kemur inn í umræðu um framtíð dreifbýlla svæða og hver rödd ungs fólks er í þeirri umræðu.
Jóhannes Árnason segir að vinnustofan hér í VMA í ApprEUnance hafi gengið vel og verið árangursrík. Fólkið sem taki þátt í verkefninu búi yfir mikilli þekkingu frá sínum heimalöndum sem áhugavert sé að kynnast.
Þegar litið var inn til þátttakenda í verkefninu sl. föstudag voru þeir önnum kafnir við að setja saman stuttar greinargerðir um það sem þeir höfðu upplifað í þessari Íslandsheimsókn og tengist viðfangsefninu – skóla/vinnustöðum.
Auk þess að kynna sér starf VMA fóru þátttakendur í heimsókn á bifreiðaverkstæði Hölds á Akureyri, en þar hafa nemendur í VMA m.a. verið í verknámi, einnig var Framhaldsskólinn á Laugum sóttur heim og kynnst námsfyrirkomulagi þar. Þá var Fjölsmiðjan á Akureyri heimsótt.