Rætt um safnafræðslu í þriðjudagsfyrirlestri
Í dag, þriðjudaginn 16. nóvember kl. 17-17.40, verður Alma Dís Kristinsdóttir, safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar, með þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Safnfræðsla sem hreyfiafl. Þar mun hún fjalla um fræðsluhlutverk safna á fræðilegum og praktískum nótum.
Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis.
Alma Dís lauk doktorsnámi í safnafræði frá Háskóla Íslands 2019 og hefur rannsakað fræðslumál safna um langa hríð. Í fyrirlestrinum mun hún m.a. kynna hagnýtt líkan sem byggt er á niðurstöðum doktorsrannsóknarinnar og til þess fallið að auka meðvitund um öfluga fræðslumöguleika til langs tíma.
Hún lauk BFA prófi í hönnun frá Massachusetts College of Art í Boston 1995, prófi í kennslufræðum til kennsluréttinda og M.Ed. prófi í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri 2007. Alma Dís hefur kennt félags-, mann- og þjóðfræði við Háskóla Íslands í mörg ár og á að baki langan feril sem starfsmaður átta ólíkra safna.
Þriðjudagsfyrirlestrar hafa verið frá því í haust, sem samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA og Gilfélagsins. Fyrirlestur Ölmu í dag er sá síðasti á haustmisseri en þráðurinn verður aftur tekinn upp í janúar 2022.