Rafeindavirkjun er eftirsótt nám
Rafeindavirkjun er öflugt nám sem boðið er upp á í VMA. Námið er í þrjár annir að loknu fjögurra anna námi í grunndeild rafiðna. Að grunndeildinni lokinni velja nemendur að fara í rafvirkjun eða rafeindavirkjun. Takmarkaðan fjölda nemenda er hægt að taka inn í rafeindavirkjunina, fram að þessu hafa tólf til fjórtán nemendur hafið námið en núna eru þeir í fyrsta skipti sautján.
Þegar litið var inn í kennslustund í rafeindavirkjuninni voru nemendur að vinna verkefni í tölvum hjá Þórhalli Tómasi Buchholz en hann er einn þriggja kennara sem kenna nemendum í rafeindavirkjuninni faggreinarnar, hinir eru Ari Baldursson og Haukur Eiríksson.
Nemendur í rafeindavirkjun halda til í einni kennslustofu í skólanum og fer öll fagkennslan fram þar. Nemendurnir verða því eins og ein stór fjölskylda á námstímanum, t.d. eru á miðvikudögum alltaf vöfflur með kaffinu.
Á þessari fyrstu af þremur önnum læra nemendur fagteikningu, fjarskiptatækni, mekatronik, nettækni, rafeindarásir, smíði og hönnun rafeindarása og stýritækni og forritun.
Eins og þessi nöfn faggreina bera með sér eru tölvur lykiltæki í námi verðandi rafeindavirkja og nemendur læra töluvert í forritun af ýmsum toga. Nemendur í rafeindavirkjun sem rætt var við sögðust hæstánægðir með þessar fyrstu vikur í náminu, það væri í senn áhugavert og gefandi.
Að námi loknu býðst nemendum að þreyta sveinspróf í rafeindavirkjun og fá þannig starfsréttindi en auk þess ganga margir nemendur í rafeindavirkjuninni lengra og bæta við sig einingum til stúdentsprófs. Bæði nefndu sumir nemendur að þeir safni slíkum einingum með því að taka til hliðar við nám sitt í rafeindavirkjuninni bóklega áfanga til stúdentsprófs í fjarnámi en einnig eru dæmi um að nemendur bæti við sig einni önn eftir rafeindavirkjunina og einbeiti sér þá að bóklegum áföngum til stúdentsprófs.
En hvað gera nemendur að loknu námi í rafeindavirkjun? Haukur Eiríksson, brautarstjóri rafiðna í VMA, segir að hluti nemenda taki bæði rafvirkjun og rafeindavirkjun og hafi því breiðan grunn þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Aðrir láta sér nægja rafeindavirkjunina og fara með það veganesti út á vinnumarkaðinn og í þriðja lagi segir Haukur að þess séu mörg dæmi að nemendur í rafeindavirkjun ljúki einnig stúdentsprófi til þess að fara í t.d. tækninám, verkfræði af ýmsum toga eða tölvunarfræði. Með öðrum orðum; rafeindavirkjun er gríðarlega góður grunnur fyrir nám af ýmsum toga ef nemendur kjósa að afla sér frekari þekkingar að námi loknu í VMA.