Rannsaka áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma
Á árunum 2009 til 2011 tóku nemendur þriggja framhaldsskóla – VMA, MA og Flensborgarskóla í Hafnarfirði – þátt í viðamikilli rannsókn á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Um var að ræða fyrri hluta rannsóknar en nú er komið að síðari hluta hennar. Síðar í þessum mánuði er ætlunin að gera nýja rannsókn, bera saman niðurstöður hennar og rannsóknarinnar 2009-2011 og sjá hvort breytingar hafi orðið á þessum tíma. Yfirskrift rannsóknarinnar er: „Ungir Íslendingar og áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma, 2. hluti.“
Rannsóknin er unnin í samstarfi Sjúkrahússins á Akureyri og Háskóla Íslands og tekur til nemenda á aldrinum 18-22 ára. Fulltrúar rannsóknarinnar munu í þessari viku koma í VMA og kynna hana fyrir nemendum. Rétt er að taka fram að rannsóknin er háð leyfum frá Persónuvernd og Vísindasiðanefnd, sem þegar hafa verið veitt.
Ekki þarf að hafa um það mörg orð að hjarta- og æðasjúkdómar eru algengustu sjúkdómar á Vesturlöndum. Þessir sjúkdómar gefa sjaldan einkenni fyrr en um og yfir fimmtugt en áhættuþættir þeirra hafa oft verið til staðar frá unga aldri.
Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna hvort og í hve miklum mæli áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma sé að finna hjá ungum Íslendingum. Mikilvægt er fyrir vísindalegt gildi rannsóknarinnar að sem flestir taki þátt í henni. Þegar fyrri hluti hennar var framkvæmdur 2009-2011 var góð þátttaka nemenda í áðurnefndum þremur skólum og vænta forsvarsmenn rannsóknarinnar að hún verði ekki síðri núna. Fyrir rannsókninni stendur og ábyrgðarmaður hennar er Gunnar Þór Gunnarsson, lyf- og hjartalæknir og lektor við læknadeild Háskóla Íslands.