Læra réttu handbrögðin við pizzugerðina
NÁSS – náms- og starfsfræðsla er einn af áföngunum sem nýnemar á brautabrú taka á haustönn. Þá fara þeir á milli verknámsbrauta skólans og eru í nokkrum tímum á hverri braut. Í mörgum tilfellum hafa þessar kynningar auðveldað nemendum að ákveða í hvaða nám þeir vilja skrá sig í skólanum.
Þegar litið var inn í tíma hjá Ara Hallgrímssyni á matvælabraut var hann að kenna einum hópi brautabrúarnemenda nokkur grunnatriði í bakstri og eldamennsku. Verkefni dagsins var fólgið í því að baka pizzu og þar er vissulega að mörgu að hyggja; hnoða deig, ákveða hvaða álegg skuli nota og sneiða það niður og loks bökunin – hiti og bökunartími. Eitt atriði nefndi Ari sem hann sagði mikilvægt að virða; fyrst ætti að setja ostinn á pizzuna og síðan áleggið. Og hann bætti við að ekki ætti að setja allt of mikið af áleggi á pizzuna, það gæti orðið til þess að miðja pizzubotnsins bakaðist ekki sem skyldi.
Ari sýndi nemendum hvernig þeir ættu að bera sig að við að sneiða niður áleggið. Aldrei væri of varlega farið þegar notaðir væru flugbeittir hnífar og því full ástæða til þess að temja sér strax rétt vinnubrögð við notkun á hnífum.
Ari segir að hver hópur brautabrúarnema sé í sjö skipti í tímum á matvælabrautinni og leitast sé við að gefa þeim innsýn í ýmis grunnatriði sem nemendur í grunndeild matvæla- og ferðagreina læra í námi sínu.