Rífandi gangur í miðasölu á Tröll
Þessa dagana er unnið hörðum höndum á öllum vígstöðvum við undirbúning að frumsýningu Leikfélags VMA á leikritinu Tröllum. Frumsýning verður í Menningarhúsinu Hofi sunnudaginn 16. febrúar nk., að rúmri viku liðinni. Miðasala er í fullum gangi í Hofi og er ástæða til þess að vekja athygli á því að hún gengur mjög vel og því er rétt að beina því til fólks að geyma ekki að ná sér í miða.
Fjórar sýningar hafa verið ákveðnar á verkinu í stóra salnum í Hofi, tvær sunnudaginn 16. febrúar kl. 14 og 17 og aðrar tvær viku síðar, sunnudaginn 23. febrúar kl. 14 og 17. Nú þegar hefur selst vel á allar sýningar og því er ekki seinna vænna að grípa gæsina. Hér er hægt að kaupa miða á allar sýningarnar.
Verkið hefur verið í æfingu síðan snemma í nóvember. Hlé var gert á þeim í desember en frá byrjun annar hefur verið æft flesta daga. Lengst af voru æfingar í VMA en frá sl. mánudegi hefur verið æft á sviðinu í Hofi og því er smám saman að skapast þar töfraveröld tröllanna.
Í stuttu máli fjallar leikverkið Tröll um Poppý og Bragga sem fara til Böggabæjar til að bjarga vinum sínum úr klóm böggana, sem trúa því að ef þau borða tröllin verði þau hamingjusöm. Á leiðinni í Böggabæ hitta þau allskyns verur og lenda í ýmsum ævintýrum. Poppý er glaðleg og hress tröllaprinsessa sem elskar ekkert meira en að syngja og vera með vinum sínum. En Braggi er andstæðan við Poppý, hann er fúll og áhyggjufullur tröllastrákur sem er alltaf hræddur um að verða étinn af böggum.
Leikstjóri er Kolbrún Lilja Guðnadóttir. Hún skrifaði handritið ásamt Jokku G. Birnudóttur. Innblástur að verkinu kemur frá hinni þekktu kvikmynd Trolls frá 2016. Kolbrún Lilja segist vera himinsæl með mikinn áhuga á sýningunni sem birtist m.a. í góðri forsölu aðgöngumiða.
„Þetta gengur svakalega vel og við erum öll virkilega ánægð með viðtökurnar. Núna fer orkan í að fínpússa og skreyta það sem var búið að leggja, við ætlum okkur svo sannarlega að standa undir væntingum. Fyrst og fremst er þetta búið að vera krefjandi, skemmtilegt og litríkt ferli, akkúrat eins og við vildum hafa það. Við hreinlega getum ekki beðið eftir að sýna árangurinn,“ segir Kolbrún Lilja.