Fara í efni

Ritlistakvöld fyrir ungt fólk á Lyst í kvöld - ókeypis aðgangur

Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur og leikari.
Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur og leikari.

Í kvöld, miðvikudaginn 2. október, kl. 20-22 verður efnt til ritlistakvölds á vegum Ungskálda á veitingastaðnum Lyst í Lystigarðinum á Akureyri. Ritlistakvöldið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16-25 ára og er aðgangur ókeypis. Veitingar verða í boði fyrir þá sem skrá sig á kvöldið. Áhugasamir ættu að grípa gæsina og skrá sig strax.

Rithöfundurinn og leikarinn Ævar Þór Benediktsson verður gestur ritlistakvöldsins og mun hann deila þekkingu sinni og reynslu til þátttakenda. Ævar hefur gefið út fjölda barna- og unglingabóka og hefur margoft unnið til verðlauna fyrir bækur sínar. Í síðasta mánuði hlaut Ævar Þór Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur fyrir handrit að bókinni Skólastjórinn. Í bókinn segir fá Salvari, 12 ára strák sem óvart fær stöðu skólastjóra og þarf að breyta skólanum eftir eigin smekk. Skólstjórinn er þroskasaga um samskipti og ábyrgð sem byggir á reynslu Ævars úr framhaldsskóla.

Ritlistakvöldið í kvöld er upptaktur að árlegri ritlistasamkeppni Ungskálda, sem verður efnt til áður en langt um líður og niðurstöður kynntar í desember nk. Ritlistakvöldið er því kærkomið og dýrmætt tækifæri fyrir þá sem fást við ritlist, skrifa sér til skemmtunar sögur og ljóð, að kynnast viðhorfum Ævars Þórs og hitta aðra sem hafa ánægju af því að skrifa.